Varnarlið ónæmiskerfisins

Mótefni

Mótefni eru sérhæfð bardagaprótín sem myndast í líkamanum þegar í hann berst tiltekinn mótefnisvaki, t.d. með sýklum eða blóðfrumum af óskyldum blóðflokki. Mótefnisvakinn og mótefnið dragast hvort að öðru og smella saman eins og bitar í púsluspili þannig að mótefnið getur tortímt mótefnavakanum. Mótefni drepa mótefnisvaka með ýmsu móti, m.a. með því að:

  • Láta þá þéttast saman í klumpa svo að þeir geti ekki hreyft sig. Því næst koma svokallaðar átfrumur sem eru ákveðin tegund af hvítum blóðkornum, og gleypa þá í sig.

  • Stinga gat á þá svo að innvolsið lekur úr þeim og þeir drepast.

  • Læsa sig í ónæmisvakana og laða síðan til sín ónæmisfrumur eins og flugur að hunangi (sér í lagi átfrumur) sem slafra þá í sig.

Hvítu blóðkornin

Milljónir hvítra blóðkorna eru á sveimi í blóðstraumnum um æðar og vefi og verja þannig líkamann gegn sýkingum með því að eyða aðskotaefnum og sjá honum fyrir mótefnum. Aðaltegundirnar eru fimm.

Eitilfrumur(lymfocytar) gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfinu. Þetta eru einkjarna hvít blóðkorn í blóði og sogæðavökva og helsta hlutverk þeirra er að mynda mótefni og frumubundin varnarsvör. Eitilfrumurnar þekkja mótefnavaka sem þær hafa hitt fyrir áður og eru tilbúnar með varnarleiki verði þeirra vart á nýjan leik í líkamanum. Eitilfrumur eru stöðugt á vakt og berast um líkamann hring eftir hring til að vera til taks þegar þeirra er þörf. Af þeim eru tvær tegundir:

  • T-frumur bregðast ekki við mótefnavökum fyrr en þær hafa verið kynntar fyrir þeim af sérstökum fylgdarfrumum. Þegar T-frumur hafa rekist á mótefnavaka gefa þær frá sér öflugt efni sem laðar að sér bardagafrumur svo sem átfrumur og aðrar varnarfrumur, og heldur þeim í bardagaham þar til stríðið við sýktar frumur hefur verið unnið. (Þær eru eins konar klapplið í viðureigninni við mótefnavakana.) Eins og stundum vill verða getur viðureigninni lokið með jafntefli: Ónæmiskerfinu tekst ekki að ganga af mótefnavakanum dauðum, en nær hins vegar að flækja hann í prótínvef þannig að hann geri lítinn eða engan skaða.

  • B-frumur eru ónæmisfrumur sem framleiða mótefni. Þær hafa gott minni og muna lengi eftir óvinunum - haldast jafnvel í líkamanum árum saman - tilbúnar að bregðast til varnar, kröftuglega og án tafar, skjóti mótefnavaki sem þær kannast við upp kollinum. Þess vegna virkar bóluefni: Örlítið af sóttkveikju (yfirleitt dauðum mótefnavaka) lömunarveiki, mislinga eða inflúensu er sprautað í blóðrásina og B- frumurnar þannig örvaðar til að framleiða mótefni við þeim. Þegar í þig berast lifandi eintök af vírus eða bakteríu er líkaminn fljótur að grípa til vopna og framleiðir milljónir frumna af réttu mótefni. Ef B-frumurnar hefðu aldrei áður rekist á þennan sérstaka mótefnavaka, hefði hugsanlega ekki orðið neitt mótefnisviðbragð eða að minnsta kosti mun hægara og innrásaraðilinn ef til vill haft betur.

Önnur aðaltegund hvítra blóðkorna eru átfrumur(macrophagar), stórvaxnar frumur sem gleypa í sig og melta örverur og aðra mótefnavaka.

Síðustu þrjár tegundir hvítra blóðkorna sem hér skulu nefndar eru daufkyrningar(neutrofílar), sýrukærar frumur(eosinofílar) og lútsæknar frumur(basofílar). Þessar frumur stuðla að bólgu, sem er byrjunarstig almenns ónæmisviðbragðs.

Helstu líffæri

  • Hóstarkirtill. Hann er að finna í efra brjóstholi framanverðu og er einskonar uppeldisstöð fyrir T-frumur.

  • Miltað er að finna ofarlega vinstra megin í kviðarholi. Það síar burt aðskotaverur sem komast í blóðið, fjarlægir gamlar eða skemmdar blóðflögur og rauð blóðkorn og geymir auk þess varabirgðir rauðra blóðkorna sem það getur afgreitt eftir þörfum jafnframt því að mynda ákveðnar tegundir hvítra blóðkorna. Sé miltað skemmt, má fjarlægja það en það getur dregið úr viðnámsþrótti gegn sýkingum.

  • Beinmergur. Beinmerg er að finna innst í miðjum beinunum, einkum í hrygg (hryggjarliðum), mjaðmargrind og fótleggjum. Hann framleiðir T-frumur, B-frumur og átfrumur – allt saman frumur sem ferðast um líkamann með blóði og líkamsvessum.

  • Eitlar. Eitlar eru hnúðar úr vessavef sem koma í veg fyrir að veirur, bakteríur og eiturefni úr vefjum berist í blóðið. Þeir sía sogæðavökva og fjarlægja mótefnavaka, bakteríur og krabbameinsfrumur sem flækjast í vefnum þar sem átfrumur, mótefni og T-frumur ná að tortíma þeim. Hundruð eitla er að finna um allan líkamann, þannig að þótt einhverjir þeirra séu fjarlægðir (venjulega úr holhönd) þegar framkvæmd er skurðaðgerð vegna brjóstakrabbameins, þá á það ekki að hafa áhrif á eitlavarnir líkamans.

ÞB