Viðbrögð við ógn

Í stuttu máli

Andoxunarefni og geislameðferð eða krabbameinslyfjameðferð

Vítamín auðug af andoxunarefnum drepa sindurefni, en sindurefni eiga aftur á móti þátt í að drepa krabbameinsfrumur. Af því að geislameðferð og ákveðnar tegundir lyfjameðferðar vinna að hluta að því að framleiða sindurefni, telja sumir vísindamenn að vítamín kunni að draga úr virkni meðferðanna. Margir krabbameinslæknar ráðleggja því sjúklingum sínum að forðast andoxunarvítamín meðan á meðferð stendur.

Það tekur líkamann tíma að þróa og setja í gang sértækt ónæmisviðbragð. Aftur á móti getur hann gripið til almenns ónæmisviðbragðs í hvert sinn sem heilsu þinni er ógnað.

Almennt ónæmisviðbragð

Ónæmiskerfið bregst samstundis við þegar líkamanum er ógnað, t.d. af veiru eða meiðslum. Viðbragð við slíkri ógn felst í að ónæmiskerfið bregst við með ósérhæfðu, almennu viðbragði sem kallast bólga. Þessu viðbragði má líkja við fótgönguliðsárás: Það er skotið í allar áttir og limlestar og drepnar allar hugsanlegar tegundir baktería, veira eða annarra örvera sem eru í skotfæri, þar á meðal sumar af eigin frumum líkamans.

Aðalfrumurnar í þessum hasar eru hvítu blóðkornin, átfrumur og niftsæknar frumur sem allar framleiða

mögnuð eyðandi efnasambönd sem ganga undir nafninu sindurefni

Sindurefni

Þar sem krabbamein er fyrir hendi eða innrás hættulegra örvera, fer líkaminn mjög fljótt að framleiða þessar mjög svo viðnæmu og óstöðugu bardagasameindir. Sameind er efniseind sem er samsett úr tveimur eða fleiri frumeindum (atómum). Að hún er viðnæm merkir að hún er næm fyrir áreiti og að hún er óstöðug felur í sér að hún breytir ástandi sínu af sjálfu sér eða við tilteknar aðstæður. Þetta eru sem sagt sameindir sem eru reiðubúnar til atlögu verði líkaminn fyrir innrás óvinaveiru eða fyrir hnjaski. Sindurefni og aðrir þættir í almennu varnarkerfi líkamans bera ábyrgð á þrota, hita og verkjum sem almennt ganga undir heitinu bólga. Af því að sindurefni eru ósérhæfð valda þau sama skaða á heilbrigðum frumum sem verða á vegi þeirra og skaðlegum bakteríum.

Þegar sindurefnin hafa lokið verkefni sínu, slokknar á þeim og þær breytast í óviðnæmar, skaðlausar sameindir. Í þeirri umbreytingu leika ákveðin fjörefni (vítamín) stórt hlutverk. Því áttu sjálfsagt eftir að heyra margsinnis minnst á sindurefni í tengslum við andoxunarvítamínin A, C, D og E.

Sértækt ónæmisviðbragð

Eftir því sem ónæmisviðbragðinu vindur fram verður það sérhæfðara. Hvítu kornin í blóði og ónæmisvefjum sem kallast eitlar, framleiða prótín sem almennt ganga undir heitinu mótefni. Þessi mótefni þekkja innrásarfrumur og drepa aðeins þær. Þá fá heilbrigðar líkamsfrumur að vera í friði og skaðast ekki. Auk þess geymir líkami þinn og man “uppskriftina” að því sérstaka mótefni sem hann setti saman til að eyða viðkomandi innrásaraðila og því getur hann brugðist fyrr við svipaðri hættu seinna meir ef á þarf að halda.


ÞB