Andleg áhrif sogæðabjúgs

Reynslusaga:

“Ég var fyrirsæta fyrir tuttugu árum þegar brjóstið var tekið af mér. Ég fékk gervibrjóst og hélt áfram að sýna föt – þangað til ég fékk sogæðabjúginn. Ég gerði allt sem ég gat til að losna við hann, en að lokum varð ég einfaldlega að læra að lifa með honum. Ég hef alltaf haft óskaplega gaman að fötum, og ég er ennþá flott og fallega klædd. Ég get hins vegar ekki sýnt tískuföt lengur, en ég get selt þau.”

- Tracy

Sogæðabjúgur getur haft áhrif á sjálfsmynd, truflað daglegar athafnir og haft áhrif á hvers konar fötum þú klæðist. Auk þess minnir hún stöðugt á sjúkdóm sem þú taldir þig hafa komist yfir. Þér kann að finnast handleggurinn þungur sem blý, eitthvert viðhengi sem er hluti af þér og þó ekki.

Kannski er þér illt í handleggnum, þú ert þreytt í honum og líður illa eða þér finnst hann stífur og þig verkjar í hann. Kannski er hann bólginn að sjá og óaðlaðandi. Fólk kann að spyrja af hverju handleggurinn eða höndin er bólgin, eða hvers vegna þú ert með teygjubindi eða sáraumbúðir. Til að bæta gráu ofan á svart krefst það stöðugrar læknismeðferðar, umhirðu og útgjalda að fást við þennan hvimleiða sjúkdóm.

Yfirleitt veldur sogæðabjúgur hvorki örorku né er hann mjög óþægilegur. Verðir þú á annað borð fyrir því að fá hann hefur kvillinn hins vegar tilhneigingu til að verða viðvarandi og stinga upp kollinum æ ofan í æ, misalvarlega. Sogæðabjúgur kann að hverfa af sjálfum sér eða læknast, en þó því aðeins að hægt sé að komast fyrir orsökina (og það fljótt).

Bólgukast varir ýmist í nokkra daga eða vikur. Sitji bólgan sem fastast í nokkra mánuði er líklegt að hún verði viðvarandi og ólæknandi. Minnstu þess þó að jafnvel alvarlegustu tilfelli hefur tekist að laga með stöðugri meðferð. Alvarleg tilfelli sogæðabólgu geta orðið til þess að húðin þykknar, hönd og handleggur verða stíf og hörð viðkomu og það vessar úr minniháttar sárum. Til allrar hamingju eru svo slæm tilfelli afar sjaldgæf.

Þegar konur fá sogæðabjúg bregðast þær misjafnlega við tilfinningalega en viðbrögðin eru öll fullkomlega eðlileg. Hugsanlega ertu reið yfir að hafa ekki verið vöruð við því að þú gætir fengið sogæðabjúg.

Kannski varstu vöruð við en ert engu að síður reið vegna þess að sogæðabjúgur er ólæknandi sjúkdómur sem þú þarft að lifa með það sem eftir er ævinnar. Algengt að konur finni til gremju yfir meðferðinni því að hún krefst mikils tíma, orku og útgjalda. Önnur viðbrögð geta verið þunglyndi og tilfinning bjargarleysis í stöðunni.

Hverjar svo sem tilfinningar þínar eru í tengslum við sogæðabjúg er mikilvægt að þú getir talað um þær við vini, fjölskyldu og lækni eða aðra í heilsugeiranum. Kannski er hjálp í að vita að þú getur valið um leiðir sem gera þér léttara að lifa með sogæðabjúg. Læknir eða hjúkrunarfræðingur getur útskýrt fyrir þér hverjir kostirnir eru og hjálpað þér að ákveða hver þeirra hentar þér best. Það krefst talsverðrar þolinmæði því að eina leiðin er að láta reyna á hvort einhver aðferð skilar árangri eða ekki. Mjög er misjafnt hvaða leið hentar best og fer það eftir einstaklingum.

ÞB