Ermar og umbúðir
Teygjuermar
Teygjuermar hafa lengi verið notaðar til að meðhöndla sogæðabjúg. Ermarnar eru úr teygjuefni og sniðnar að handleggnum. Þær má nota einar sér ásamt sogæðanuddi eða með loftdælu.
Til eru margar gerðir erma sem veita stuðning eða setja þrýsting á handlegginn. Fáðu sjúkraþjálfa eða iðjuþjálfa til að aðstoða þig við að finna ermi sem situr rétt og þægilega. Hér fara á eftir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga svo að valið takist sem best:
-
Notaðu aldrei ermi sem ekki passar vel, ertir húðina eða eykur bólgu á einhvern hátt.
-
Bera má vatnsleysanlegt lím efst á ermina innanverða til þess að koma í veg fyrir að hún sígi niður – en það dregur úr áhrifum hennar. Límið næst auðveldlega af með vatni og sápu.
-
Útvegaðu þér tvo umganga svo að þú eigir til skiptana. Þvoðu hvora ermi í ylvolgu vatni annan hvorn eða þriðja hvern dag. (Láttu hana þorna liggjandi - ekki vinda.) Þær endast miklu lengur ef þú átt til skiptanna og hirðir vel um þær.
-
Endurnýjaðu ermarnar á um það bil hálfs árs fresti vegna þess að teygjan linast með tímanum.
-
Athugaðu hvort læknir þinn er ekki fús til að láta þig hafa lyfseðil fyrir þessu eða einhvers konar vottorð þannig að þú getir fengið kostnaðinn endurgreiddan frá Tryggingastofnun ríkisins(hjálpartækjamiðstöð T.R.).
Umbúðir
Í stað erma má nota sérstök teygjubindi ásamt tróði til að setja þrýsting á handlegginn. Fáðu þar til bæran sjúkraþjálfa eða hjúkrunarfræðing til að kenna þér að setja á þig bindið til að byrja með.
Ermar hafa bæði kosti og galla og hið sama má segja um umbúðir. Auðveldara að setja á sig ermi en umbúðir og þægilegt að athafna sig með hana í daglegu lífi. Svona ermar eru hins vegar dýrar, þurfir þú að bera kostnaðinn ein, og yfirleitt veita þær ekki meiri stuðning en svo að þær koma einungis í veg fyrir að bólgan versni, ekki nógu mikinn til að draga úr henni. Umbúðir úr teygjubindi með tilheyrandi tróði eru fyrirferðarmeiri og óþjálli og það tekur lengri tíma að koma þeim fyrir, en þær geta skilað betri árangri.
*Hlutur Tryggingastofnunar ríkisins við kaup á ermi/ermum
Fylgi beiðni frá lækni pöntun á ermi, greiðir TR 70% af kostnaðinum. Einungis er heimid frá TR fyrir einni ermi í senn (nema bæði brjóst hafi verið tekin og bjúgur í báðum handleggjum). Skv. reglum tryggingastofnunar má endurnýja ermi eftir 6 mánuði. Leiðbeiningar gera ráð fyrir að ermi sem notuð er á hverjum degi, sé þvegin daglega.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda
ÞB