Sogæðanudd og dælur

Sogæðanudd

Sú tegund sogæðanudds sem þú þarft á að halda er afar varfærnisleg meðferð sem felst aðallega í því að örva húðina og sogæðarnar undir henni. Svona nudd er ólíkt venjulegu nuddi sem ætlað er að mýkja vöðva og djúpa vefi og er á stundum afar kraftmikið. Þess háttar nudd gæti gert sogæðabjúg verri í stað þess að laga hann.

Með sogæðanuddi örvar nuddgjafinn handlegginn varlega með því að hreyfa fingurna laust í hringi á húðinni. Nuddarinn hreyfir hörundið hægt til með hringlaga hreyfingum eða þrýstingi, oftast nær í átt að öxlinni. Þessi tækni krefst sérstakrar þjálfurnar og vottorðs sem staðfestir að nuddgjafinn kunni hana. Inntu þann sem veitir meðferðina eftir því hvort hann eða hún hafi fengið sérstaka þjálfun í sogæðanuddi og hversu mikla í tímum talið.

Í lok hverrar meðferðar setur nuddarinn á þig viðeigandi umbúðir. Markmiðið er að koma í veg fyrir að vökvi safnist aftur fyrir og móta lögun handleggjarins þannig að hann líkist þeim sem heilbrigður er. Sami aðili á einnig að kunna skil á leiðbeiningum um æfingar sem þú getur gert (og þarft að gera) með umbúðirnar á sínum stað.

Oft þarf að gefa sogæðanudd daglega, þrisvar til fimm sinnum í viku í nokkrar vikur. Það fer eftir því hve bjúgurinn er mikill. Hver nuddtími er um það bil 1 til 1½ klukkustund.  * Kynntu þér þá endurhæfingu sem veitt er á LSH gegn beiðni frá krabbameinslækni eða athugaðu hvort þú getur fengið styrk úr sjúkrasjóði og eða niðurgreiðslur frá TR.

Hversu vel tekst til með svona meðferð fer að miklu leyti eftir færni og samviskusemi nuddarans. Mikilvægt er einnig að þú sért dugleg, kunnir að búa vel um handlegginn og haldir þig við meðferðarplanið. Innri gerð og ástand sogæðakerfisins getur líka haft áhrif á hversu vel tekst til með svona meðferð.

** Hjá  Bata sjúkraþjálfun  í Húsi verslunarinnar starfar öflugur hópur sjúkraþjálfara sem hefur sérmenntun og sérhæfingu í að taka á móti konum með sogæðabjúg  eða  stoðkerfisvandamál eftir krabbameinsmeðferð. Kynnið ykkur málið.

Heimasíða Bata er hér:  http://bati.is/ 

** Ljósið býður upp á hópa og sérhæfða sogæðameðferð . Ljósið:  http://ljosid.is/

Dælur

Loftdælur eru undirstaða hefðbundinnar meðferðar við bjúg sem er uppsöfnun utanfrumuvökva í vefjum og líffærum. Handleggnum er komið fyrir í ermarlangri plasthlíf sem síðan er fyllt lofti. Hlífin þrýstir á vefinn og hreyfir staðnaðan vökva upp og út úr bólgna handleggnum. Þegar lokið er við að nota dæluna er teygjubindum yfirleitt vafið um handlegginn eða teygjuermi sett á hann til að halda við áhrifunum dælingarinnar.

Góð sogæðadæla hefur tvennt til að bera:

  1. Hún gefur stigvaxandi þrýsting: Það þýðir að dælan setur meiri þrýsting á höndina en á upphandlegginn og þrýstir þannig uppsöfnuðum vökva í rétt átt, þ.e.a.s. upp á við. Sogæðadælur sem setja sama þrýsting á allan handlegginn eru ekki jafn góðar og þessar.

  1. Hún gefur keðjuverkandi þrýsting: Það þýðir að dælan veldur þrýstingi sem færist frá hendinni upp eftir handleggnum eins og þegar verið er að mjólka.

Þessi meðferð krefst samviskusemi því að það tekur um það bil tvo klukkutíma á hverjum degi að ná árangri sem þó varir aðeins tímabundið. Þú getur séð um þetta sjálf heima fyrir á meðan þú lest eða horfir á sjónvarp. Þú þarft að fá þar til bæran fagaðila til að stilla dæluna og gera með þér áætlun um notin. Þú þarft líka að láta fagaðila fylgjast með því hvaða árangri meðferðin skilar. Góðar sogæðadælur eru dýrar en hugsanlega er hægt að fá svona tæki leigt eða lánað (Hjálpartækjamiðstöð TR).

Ekki kaupa svona tæki eða láta kaupa það fyrir þig hvar sem er. Þú þarft að vera viss um að fá þá tilsögn og það eftirlit sem nauðsynlegt er fyrir þig.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB

** Málsgrein merkt tveimur stjörnum er innskot núverandi umsjónamanna síðunnar.