Stuðningur við handlegg og æfingar

Álit hjúkrunarfræðings:

“Að mínu mati er sund öruggasta og besta hreyfingin fyrir efri hluta líkamans. Engin hætta er á meiðslum og margar konur hafa af því mikið gagn. Tilvalið er að nota gamla teygjuermi í lauginni. Þegar hún blotnar eykst þrýstingur í erminni og það getur stuðlað að því að minnka bólgu."

—Saskia Thiadens, R.N.

Stuðningur við handlegg

Gæti MINNSTU bólgu í handleggnum eða einhverrar sýkingar, skaltu venja þig á að hvíla handlegginn í upphækkaðri stöðu við hvert tækifæri. Haltu hönd og olnboga í hæð fyrir ofan öxl og hjartastað. Í þannig stöðu á sogæðavökvinn í veika handleggnum auðveldara með að komast aftur út í hringrásina. Hvílir þú handlegginn á hörðu húsgagni eins og til dæmis stólbaki, skaltu forðast að setja þrýsting á holhöndina. Ekki skaltu heldur halda handleggnum uppi lengi í einu án stuðnings því að það reynir á vöðva í handleggnum og getur framkallað enn meiri bólgu.

Mjúkar æfingar

Hreyfing getur hjálpað þér að minnka sogæðabjúg vegna þess að hún er aðferð náttúrunnar við að flytja sogæðavökva upp handlegginn andstreymis (í öfuga átt við þyngdarlögmálið) og aftur inn í hringrásina. Samdráttur vöðva umhverfis vökvafylltar sogæðar hefur sömu áhrif og þegar „mjólkað” er og hjálpar til við að þrýsta vökva upp og út úr handleggnum.

Hreyfing eykur einnig blóðflæði út í handlegginn sem að sama skapi eykur þann sogæðavökva sem ræsa þarf út. Þar af leiðandi er hæfileg hreyfing ásamt rétt bundnu teygjubindi mjög áhrifarík leið til að dæla sogæðavökva aftur inn í hringrásina. Til þess að aðferðin virki sem best þarf að setja bindið rétt á (þú skalt fá tilsögn við það).

Hér koma ábendingar um mjúkar æfingar sem geta dregið úr bólgu í handleggnum:

  • Liðkunaræfingar eru auðveldar og geta hjálpað þér að viðhalda hreyfigetu.

  • Armteygjur geta aukið flæði um sogæðar.

  • Styrkjandi æfingar þar sem unnið er með léttvikt (1/2 til 1 kg) geta komið að gagni.

  • Sund er tilvalin hreyfing vegna þess að það sameinar vöðvahreyfingu og vatnsþrýsting utan á handlegginn.

Öndunaræfingar þar sem saman fara djúpur andardráttur og kraftmiklar hreyfingar er sagt að hafi eins konar loftsogsáhrif á sogæðakerfið. Æfingarnar auka flæði sogæðavökva og sömu áhrif hefur hressilegur hlátur sem kemur neðan úr maga.

Farðu varlega í að takast á við leik eða starf sem felst í síendurteknum hreyfingum með viðkvæma handleggnum, einkanlega þegar einhver mótstaða fylgir hreyfingunni. Þetta á til dæmis við um að ryksuga heimilið (láttu einhvern annan um það!), hossa barni eða barnabarni (einkum í hita) eða flytja til þung húsgögn eða kassa. Svona áreynsla getur framkallað of mikið blóðflæði út í handlegginn.

Að léttast

Algengt er að konur þyngist við að fara í krabbameinslyfja- eða andhormónameðferð og af hreyfingarleysinu sem iðulega fylgir í kjölfarið. Það kann að gera vandann verri. Takist þér að léttast, kynni það að draga úr sogæðabjúg.

Að léttast er auðvitað ekki einfalt mál og virðist verða erfiðara eftir því sem árin færast yfir. Að minnka salt- og sykurneyslu dregur úr vökvasöfnun líkamans. Það út af fyrir sig gæti auðveldað þér að ná niður þyngd og minnkað vökvasöfnun í handleggnum. Heilsunnar vegna þarftu engu að síður á því að halda að drekka mikinn vökva – helst hreint vatn.

ÞB