Vatnslosandi lyf, benzopyronlyf, skurðaðgerð
Vatnslosandi lyf
Vatnslosandi lyf og þvagræsilyf eru lyf sem fjarlægja umframvökva úr öllum líkamanum. Yfirleitt er EKKI mælt með þeim sem ráði við sogæðabjúg. Ástæðan er sú að lyfin eyða ekki prótínum þeim sem draga að sér eða hengja sig á frumur í sogæðavökvanum. Um leið og þú hættir að taka lyf af þessu tagi draga prótínin aftur vökva í handlegginn og hann bólgnar á nýjan leik.
Best er að byrja á meðferð sem tekur sérstaklega á handleggnum en hefur ekki áhrif á allan líkamann. Ekkert útilokar þó að nota vatnslosandi lyf endrum og sinnum við hátíðleg tækifæri þegar þig langar til að líta sem allra best út.
Hins vegar má vera að þú þurfir að nota þvagræsilyf sé eitthvað að hrjá þig sem valdið getur bólgu um allan líkamann. Þar á meðal er hár blóðþrýstingur, hjartabilun (congestive heart failure) og almenn bjúgsöfnun.
Eftirlit læknis er nauðsynlegt þegar tekin eru þvagræsilyf. Regluleg notkun þvagræsilyfja krefst þess einnig að tekin séu blóðsýni reglulega til að fylgjast með hvort blóðhagur er í lagi.
Benzopýronlyf
Þessi lyf eru notuð í Evrópu til að meðhöndla sogæðabjúg en hafa ekki verið samþykkt af Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna. *Ráðfærðu þig við lækni þinn áður en þú tekur inn lyf.
Coumarin er það benzopýronlyf sem mest er notað. (Ekki má rugla því saman við Coumadin sem er blóðþynningarlyf.) Framleiðandinn heldur því fram að lyfið stuðli að því að eyða prótínum í kyrrstæðum sogæðavökva og minnki bæði vökva og bólgur. Því er hins vegar haldið fram af læknum að liðið geti margar vikur, jafnvel ár, áður en sýnilegur árangur næst.
Skurðaðgerð
Gripið hefur verið til þess ráðs að framkvæma skurðaðgerð þegar aðrar leiðir eins og þeim er lýst hér að framan hafa reynst árangurslausar. Hugmyndin að baki skurðaðgerð er sú að búa til nýjar leiðir fyrir uppsafnaðan vökva út úr handleggnum.
Svona skurðaðgerðir eru fyrst og fremst framkvæmdar í Evrópu. Farðu varlega í að velja þennan kost. Jafnvel þótt þú sért í reyndum höndum gæti skurðaðgerð gert ástandið verra og afleiðingarnar reynst þér mjög hættulegar.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB