Hverjum er hætt við sogæðabjúg eða -bólgu?

Hafi eitlar í holhönd verið fjarlægðir (um leið og brjóstið var fjarlægt eða tekinn úr því fleygur) áttu á hættu að fá vott af sogæðabjúg. Geislun á eitlasvæði í holhönd kann að auka líkurnar og hið sama gildir um meðferð með krabbameinslyfjum.

Þeir sem hafa rannsakað þetta eru ekki á einu máli um hversu mikil eða lítil hættan á sogæðabjúg er í raun og veru. Áhætta eða líkur eru yfirleitt sýndar sem prósentutala: Hversu margar konur af eitt hundrað munu fá sogæðabjúg í framhaldi af meðferð við brjóstakrabbameini? Samkvæmt sumum áætlunum er talan einhvers staðar á bilinu 5% til 10% (5 eða 10 konur af hverjum 100), eða jafnvel allt upp í 25% (25 konur af hverjum 100) við ákveðnar aðstæður. Eitt er þó ljóst: Því fleiri meðferðir sem kona gengst undir, þeim mun meiri líkur eru á sogæðabjúg.

Eftir brjóstnám (allt brjóstið tekið) og eitlatöku eru líkurnar þær sömu og eftir fleygskurð (hluti brjóstsins fjarlægður), eitlatöku og geislameðferð á brjóstinu.

Tiltölulega ný tækni við eitlatöku, s.k. varðeitlafláning (sentinel node dissecting) miðast við að fjarlægja aðeins þá eitla í holhönd sem líklegt er að í sé að finna krabbameinsfrumur út frá æxli í brjósti. Þá eru fjarlægðir 2-3 eitlar sem liggja næst brjóstinu, athugað hvort þeir eru hreinir og svo ræðst framhaldið af því. Því fyrr sem hreinn eitill finnst, þeim mun fyrr er látið staðar numið. Þessi aðferð gæti dregið úr líkum á sogæðabjúg því að hugsanlega eru fjarlægðir færri eitlar en ella og þar af leiðandi látnar óhreyfðar fleiri “frárennslislagnir” fyrir sogæðavökva.

Líkur á sogæðabjúg kunna að vera meiri hjá sumum konum en öðrum. Auknar líkur geta fylgt því:

 • Að vera of þung: Það kann að draga úr flæði blóðs og sogæðavökva í og umhverfis handlegginn,

 • að reykja mikið,

 • að vera með sykursýki,

 • að vera með einhvern annan sjúkdóm sem hefur áhrif á blóðrás og flæði sogæðavökva í eða umhverfis handlegginn,

 • að hafa áður verið skorinn upp í eða umhverfis holhönd eða handlegg.

 

Hvað framkallar sogæðabjúg eða -bólgu?

Sogæðabjúgur getur stungið upp kollinum fáeinum vikum eftir skurðaðgerð og jafnvel að nokkrum árum liðnum frá upphaflegri krabbameinsmeðferð. Hann getur framkallast við áverka eða sýkingu eða án augljósrar ástæðu. Þættir sem geta framkallað sogæðabjúg eru til dæmis:

 • Áverki á vöðvum eða hörundi handleggjar sem getur framkallað ígerð, þar með taldar rispur, skordýrabit, sólbruni, bruni við matseld, skurðir eða rispur við garðvinnu, plöntuskrámur (brenninetlur o.fl.) sprungur í hörundi vegna viðvarandi þurrks eða húðin rifnar eða slitnar vegna þess að stungið er í hana eða kroppað (kækir).

 • Mikil þyngdaraukning í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Á sama hátt og það eykur líkurnar að vera of þung við upphaf meðferðar, eykur það líkur á sogæðabjúg að þyngjast í kjölfar hennar.

 • Hiti. Vegna þess að hiti víkkar út æðarnar gerir hann það að verkum að meiri vökvi berst inn á svæði sem eiga á hættu að bólgna. Mikill veðurhiti eða seta í heitum potti getur framkallað sogæðabjúg.

 • Blóðkekkir. Stundum gerist það að blóðkökkur (tappi) myndast í æð í holhönd og getur þá teppt vökva í handleggnum.

 • Langar flugferðir. Þótt ekki sé algengt að langflug framkalli sogæðabjúg hafi hann ekki verið til staðar, getur sogæðabjúgur sem er fyrir hendi, versnað við breytingar á loftþrýstingi.

 • Meinvörp brjóstakrabbameins í eitlum er sjaldgæf orsök sogæðabjúgs. Þetta kann þó að gerast ef krabbamein stöðvar flæði sogæðavökra sem leitast við að komast í gegnum eitla.

Sértu laus við sogæðabjúg merkir það að líkama þínum hefur lærst að beina auknu flæði sogæðavökva í nýjan farveg. Hafi sogæðabjúgur á annað borð gert vart við sig hefur hann því miður tilhneigingu til að versna. Því lengur sem hann varir, þeim mun erfiðara verður að minnka bólgu í handleggnum.

ÞB