Hvernig forðast má sogæðabjúg/-bólgu

Í stuttu máli - hafir þú fengið krabbamein í bæði brjóstin:

Af því að þú átt báða handleggi að verja gegn sogæðabjúg þarftu að passa sérlega vel upp á sjálfa þig. Ekki eru nándar allir í heilsugeiranum meðvitaðir um hvað varast ber til að koma í veg fyrir sogæðabjúg. Þurfirðu að láta mæla blóðþrýsting eða taka úr þér blóð, farðu þá fram á að það sé gert á fæti eða fótlegg. Reynist það ekki gerlegt, láttu þá gera það á þeim handlegg sem þú notar minna. Hafi ekki verið fjarlægðir eitlar úr annarri holhöndinni, bjóddu þá fram þann handlegg, hvort sem þú notar hann meira en hinn eða ekki. Í neyðartilviki (til dæmis við bílslys) þar sem nauðsynlegt reynist að koma fyrir æðalegg, skaltu leyfa hjúkrunarfólki að gera það sem gera þarf í því skyni að gefa lyf eða blóð í æð.

Aðferðirnar sem nú tíðkast við meðferð á brjóstakrabbameini hafa minnkað líkur á sogæðabjúg. Hafi brjóstið hins vegar verið tekið fyrir einhverjum árum síðan, kanntu að hafa orðið fyrir því að handleggurinn bólgnaði eða átt á hættu að fá þennan kvilla. Því er þér sannarlega fyrir bestu að hafa vaðið fyrir neðan þig. Jafnvel öruggasta og áhrifaríkasta meðhöndlun tefur kannski einungis fyrir sjúkdómnum eða kemur í veg fyrir að hann versni. Við áverka eða sýkingu er því mjög mikilvægt að leita samstundis læknis.

Fyrirbyggjandi aðgerðir eru áhrifaríkastar gegn sogæðabjúg og/eða sogæðabólgu. Lestu þér til um einkennin og til hvaða ráðstafana er hægt að grípa. Leggðu meðfylgjandi heilræði á minnið, vertu þér meðvituð um þau og gerðu þau að óaðskiljanlegum þætti í heilsuvernd þinni.

Húðvernd er fyrsti varnarleikurinn. Þar eð húðin er ysta lag líkamans og vörn gegn sýkingum getur hvers kyns húðrof bakað vandræði. Brunasár, særi (sár af völdum núnings), þurrkur, áverki á nögl (t.d. annögl), sprungur, skurðir, flísar og skordýrabit – allt getur þetta auðveldlega framkallað sýkingu.

Lærðu að þekkja fyrstu merki um sýkingu. Þau eru:

 • Hiti,

 • roði,

 • bólga, hitatilfinning eða eymsli í handleggnum sem er í hættu.

Sýking og bólga geta vaxið mjög hratt. Roði, eymsl og hitatilfinning getur borist frá áverkanum upp eftir handleggnum. Talaðu við lækni um leið og þig grunar að um ígerð sé að ræða. Verðir þú vör minnstu merkja um vandræði, þarftu hugsanlega að fá sýklalyf umsvifalaust. Sértu bólgin fyrir eða með sykursýki (hvort sem þú ert bólgin eða ekki) kanntu að hafa þörf fyrir sýklalyf við minnsta áverka – jafnvel þótt engin merki um sýkingu séu sýnileg.

Sértu illa haldin af sogæðabjúg getur heimsókn til tannlæknis framkallað sýkingu í handleggnum. Aðgerðir tannlæknis í munnholi geta aukið bakteríafjöldann sem kemst inn í blóðrásina. Í viðkvæmum svæðum líkamans, eins og til dæmis í bólgnum handlegg með slakri ræsingu, getur myndast gróðrarstía fyrir sóttkveikjur. Hafir þú orðið fyrir því að fá sýkingu í handlegg í kjölfar heimsóknar til tannlæknis, talaðu þá við lækni þinn um hvort rétt sé fyrir þig að taka inn sýklalyf í fyrirbyggjandi skyni framvegis áður en þú ferð til tannlæknis. (Fólk með bilaðar hjartalokur fær fyrirbyggjandi sýklalyf á undan eða strax á eftir tannlæknisheimsókn af sömu ástæðu.)

Það sem þú skalt gera eða láta ógert til að koma í veg fyrir sogæðabjúg/-bólgu:

 • Berðu rakagefandi áburð á hörundið oft og reglulega. Notaðu áburð eins og t.d. Aloe Vera krem frá Jásön sem er hrein náttúruafurð (greipaldinkjarnar notaðir sem rotvörn) til að gera húðina mjúka og verja hana þurrki svo að hún springi ekki eða þinn eigin uppáhaldsáburð sem þú getur treyst að hafi ekki að geyma óæskileg aukaefni.

 • Gættu ítrasta hreinlætis og haltu hönd og handlegg hreinum en notaðu ekki sterkar sápur. Bestar eru hreinar jurtasápur.

 • Notaðu gúmmíhanska við uppvaskið eða þegar þú þværð flíkur í höndunum.

 • Notaðu sterka tauhanska þegar þú ert við garðvinnu eða önnur útistörf.

 • Gerðu fleiri hlé en þú ert vön þegar þú skrúbbar, skúrar gólf, ryksugar eða leysir af hendi önnur störf sem krefjast kröftugra eða endurtekinna hreyfinga, einkum sértu þreytt í handleggnum, finnst hann þungur eða finnur fyrir verk.

 • Vertu með trausta ofnhanska þegar þú meðhöndlar heit áhöld og mat.

 • Notaðu rafmagnsrakvél en ekki vél með blaði.

 • Notaðu skordýrafælur sem ekki þurrka húðina og forðastu tegundir sem innihalda vínanda. (Sjáir þú eitthvað sem endar á “ol” í innihaldslýsingunni er það allt einhvers konar alkóhól, svo þú skalt forðast það.) Forðastu á sama hátt að nota efni sem inniheldur eitthvað sem byrjar á “pro” eða “prop”.

 • Notaðu bakteríudrepandi krem eða sárasmyrsl á öll skordýrabit eða slitin naglabönd (svo framarlega sem þú ert ekki með ofnæmi fyrir þeim).

 • Verndaðu handlegginn gegn sólbruna með sólvarnarkremi. Notaðu sólarkrem með a.m.k. 15 í sólvörn, 30 væri enn betra.

 • Vertu með fingurbjörg þegar þú saumar.

 • Hvíldu handlegginn í uppréttri stöðu. Haltu samt ekki handleggnum uppi án stuðnins lengi í einu því vöðvarnir þreytast á því.

 • Sértu með sykursýki, skaltu gæta afar vel að blóðsykrinum til að draga úr hættu á skemmdum á háræðum og sýkingu.

 • Hafðu teygjubindi, teygjuarmhlíf eða hanska á þeirri hendi eða þeim handlegg sem í hlut á þegar þú ferðast með flugvél (hafir þú fengið sogæðabjúg).

 • Ekki fara í mjög heitt bað eða sturtu.

 • Ekki skipta úr mjög heitu yfir í kalt þegar þú baðar þig, ferð í sturtu eða vaskar upp.

 • Ekki fara í mjög heitan pott í sundlaugum eða heima fyrir, gufubað eða eimbað.

 • Ekki setja hitapoka eða heita bakstra á handlegg, háls, axlir eða bak þeim megin sem hætta er á sogæðabjúg. Hafðu líka varann á í sambandi við annars konar meðferðir sem framkalla hita, hvort sem nuddari, sjúkraþjálfari eða önnur fagmanneskja meðhöndlar þig. Þetta á við um hátíðnimeðferð, nuddpotta, vökvameðferð og djúpvöðvanudd. Hiti og kraftmikið nudd örvar líkamann til að senda viðbótarvökva í gegnum svæði sem er hætt við bólgu.

 • Ekki halda á þungum hlutum með viðkvæma handleggnum og ekki bera neitt þungt í þeirri hendinni sem togar handleggurinn niður með síðunni.

 • Ekki bera þunga tösku þeim megin sem þú ert viðkvæm fyrir.

 • Ekki ganga í fötum með þröngum ermum eða fötum sem hindra hreyfingu á einhvern hátt.

 • Ekki ganga með úr eða skartgripi á þeirri hendi eða þeim handlegg sem er viðkvæmur.

 • Ekki ganga með þungt gervibrjóst eftir brjóstnám. Það getur sett of mikinn þrýsting á nýju leiðirnar sem sogæðavökvinn kann að sækja í og eru þegar undir tvöföldu álagi. Finndu létta gerð eða búðu hana til sjálf.

 • Ekki drekka mikið áfengi. Vínandi þenur út háræðar sem flytja meiri sogæðavökva út í vefina.

 • Ekki reykja. Reykingar þrengja háræðar, og draga úr vökvaflæði í handleggnum.

 • Ekki fá þér handsnyrtingu sem felur í sér að klippa húð (naglabönd) umhverfis neglur eða annað sem getur ert eða sært húðina.

 • Ekki leyfa að blóðþrýstingur sé mældur á viðkvæma handleggnum. Hafir þú fengið krabbamein í bæði þrjóst, farðu þá fram á að blóðþrýstingur sé tekinn á lærinu. Sé ekki hægt að verða við því, biddu þá þann sem tekur blóðþrýsinginn um að blása armbelginn ekki í botn heldur aðeins lítillega yfir efri mörkin þín.

 • Ekki leyfa neinum að stinga gat á viðkvæma handlegginn undir nokkrum kingumstæðum, hvort sem um er að ræða að gefa sprautu, taka blóð eða bólusetja. (Treystu engum til að muna hvor handleggurinn er sá rétti, ekki einu sinni lækni þínum.) Hafir þú fengið krabbamein í bæði brjóst og eitlar verið fjarlægðir úr holhönd, ber að taka blóð úr einhverjum öðrum hluta líkamans. Reynist óhjákvæmilegt að taka blóð úr handleggnum, láttu þá taka úr þeim handlegg sem þú notar síður (vinstri handlegg sértu rétthent; hægri handlegg sértu örvhent). Hafi ekki verið fjarlægðir eitlar öðrum megin, bjóddu þá fram þann handlegg, hvort sem þú notar hann meira eða ekki.

ÞB