Svona myndast sogæðabjúgur í upphandlegg

Sogæðabjúgur í handlegg myndast þegar sogæðavökvi safnast fyrir í mjúkum vefjum handleggjarins með tilheyrandi bólgumyndun. Þú þarft að vita svolítið um hvernig blóð og sogæðavökvi ferðast um líkamann til að skilja hvernig þetta gerist.

Til þess að ekki myndist stíflur verður vökvinn í líkamanum að halda látlaust áfram að streyma um net æða, stórra og smárra. Blóðið rennur frá hjartanu fram í handlegginn um slagæðar og háræðar (litlu æðarnar sem tengja slagæðar og bláæðar). Um leið og blóðið rennur um háræðarnar skilur það eftir mikilvægar byrgðir handa frumum í handleggnum: súrefni, næringarefni og glæran, litlausan vökva sem kallast sogæðavökvi. Notaða blóðið heldur ferðinni áfram og rennur aftur til hjartans og lungnanna þar sem það endurnýjast. Með hverjum hjartslætti flyst nýtt blóð út í handlegginn með ferskum byrgðum.

Sogæðavökvi þarf einnig að halda ferð sinni látlaust áfram um vefi handleggjarins og aftur út í blóðrásina. Sogæðavökvi rennur í annars konar æðakerfi – sogæðunum eða vessaæðunum eins og þær eru líka kallaðar.

Sogæðabólga

Stækka mynd

Eitlar í og umhverfis brjóstið

A Brjóstvöðvi (pectoralis major)
B Eitlar í holhönd: svæði I
C Eitlar í holhönd: svæði II
D Eitlar í holhönd: svæði III
E Viðbeinseitlar
F Innri mjólkureitlar



Handleggsvöðvar og samdráttur í veggjum sogæða þrýsta sogæðavökva fram í handlegginn. Lokur í sogæðunum sjá til þess að vökvinn renni ekki aftur á bak heldur áfram. Sogæðarnar liggja í gegnum fyrirbæri sem eru í laginu eins og bakaðar baunir, kallast eitlar og eru staðsettir í holhönd, hálsi, nára og víðar. Eitlar sía bakteríur, úrgangs- og eiturefni frá sogæðavökvanum. Úrgangur sem situr eftir í eitlum brotnar niður í þeim og skolast út úr líkamanum. Að lokum rennur notaður sogæðavökvi úr handleggnum, sameinast notuðu blóði í bláæðum, hreinsast í lungum og svo sér hjartað um að dæla honum aftur út í vefina.

Í sogæðavökva er mikið af næringarefnum. Hann er sóttkveikjum (bakteríum) auðvelt skotmark, nái þær að komast í gegnum varnarlag húðarinnar. Sóttkveikjur geta borist í líkamann eftir sakleysislegum leiðum eins um rifið naglaband eða flís. Komist sóttkveikja að líkamanum getur hún valdið bólgu. Bólgan framkallar þá aukið blóðflæði til þess að berjast við og vinna bug á sóttkveikjunni – og meiri sogæðavökvi rennur þangað sem þarf síðan að leiða í burtu.

Hægt er að hugsa sér sogæðabjúg sem nokkurs konar stíflu í frárennsliskerfi. Bláæðar og sogæðar eru eins og leiðslur og niðurföll sem geta ráðið við venjulegt álag frá sogæðavökva. Við brottnám eitla og sogæða verða leiðslur eða niðurföll hugsanlega ekki nógu mörg til að fjarlægja allan vökva.

Þetta getur orðið verulegt vandamál þegar blóðflæði eykst fram í handlegginn vegna sýkingar, brunasárs, ofreynslu vöðva í handleggnum eða jafnvel vegna skordýrabits. Við þær aðstæður getur aukið flæði sogæðavökva orðið sogæðakerfinu í handleggnum ofviða og orðið að sogæðabólgu. Ráði æðar sem flytja sogæðavökva ekki við allan viðbótarvökva, tekur hann að safnast fyrir í rými á milli frumna í mjúkum vefjum handleggjarins. Þessir vefir eru til dæmis húð, fita, vöðvar, taugar, æðakerfi, sogæðakerfi og sinar. Bólga sem myndast við það að sogæðavökvi safnast fyrir kallast sogæðabólga eða sogæðabjúgur eftir atvikum.

Sogæðabjúgur getur haft áhrif á allan handlegginn eða hluta hans, svo sem eins og hönd, únlið, svæðið fyrir neðan olnbogann eða aðeins á svæðið fyrir ofan olnbogann. Það er þó mun sjaldgæfara. Sogæðabjúgur getur einnig haft áhrif á bringu og brjóst vegna þess að blóð þaðan þarf einnig að renna um holhönd til að komast aftur út í blóðrásina.

Sumar konur fá vægan sogæðabjúg, varla greinanlega með berum augum. Sumar fá miðlungsmikinn sogæðabjúg sem getur verið sýnilegur, hættir til að verða þrálátur og versnar við álag. Aðrar fá alvarlega sogæðabólgu sem er mjög óþægileg og getur jafnvel leitt til örorku. Í öllum tilfellum eru til úrræði sem geta dregið úr óþægindum og minnkað bólguna.

ÞB