Skyndileg sogæðabólga

Gruni þig að þú sért að fá sogæðabólgu upp úr þurru, skaltu umsvifalaust leita læknis. Húðsýking (cellulitis) er óvinur þinn og það er fyrst og fremst hún sem framkallar bjúg. Einfalt er að lækna húðsýkingu með mörgum ágætum sýkladrepandi lyfjum, þar á meðal penisilíni. Stuttur penisilínkúr hefur yfirleitt óverulegar aukaverkanir. *Skynsamlegt getur verið að borða AB-mjólk eða taka inn meltingargerla í töfluformi (acidophilus t.d.) til að halda þarmaflórunni gangandi.

Ekki byrja á sýklalyfjakúr án þess að ráðgast við heimilis- eða heilsugæslulækni. Reynist erfitt að ná í lækni að næturlagi eða um helgi, skaltu leita til næsta sjúkrahúss eða á bráðavaktina. Mundu að segja lækninum frá því, hafir þú ofnæmi fyrir einhverju sérstöku sýklalyfi.

Sé ekki brugðist skjótt við, getur sýkingin dreift sér upp handlegginn og valdið umtalsverðri bólgu. Sé alls ekki er brugðist við, getur svo farið að sýkingin berist út í blóðrásina og um allan líkamann. Hún getur jafnvel stofnað lífi þínu í hættu.

Á brunasár skaltu setja sótthreinsandi sárakrem og hreina grisju; hreinsaðu sárið reglulega og berðu aftur á sótthreinsandi krem og hreinar umbúðir. Haltu sárum og rispum hreinum: Þvoðu svæðið tvisvar til þrisvar á dag með sótthreinsandi upplausn, t.d. vatni og peroxíði til helminga, og settu á það sótthreinsandi sárakrem og grisju.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB