Hormónabreytingar
Hormónabreytingarnar sem verða á ævi einnar konu eru eins og ferðalag um fjöll og dal. Á UNGLINGSÁRUM svara eggjastokkar kalli frá heilanum og byrja að framleiða hormóna sem nefnast estrógen, progesterón og testosterón. Fljótlega byrjar mánaðarlegt egglos og því fylgja síðan blæðingar hafi eggin ekki frjóvgast.
Konur eru frjósamastar í um það bil aldarfjórðung, frá aldrinum þrettán ára til fertugs. Eftir það dregur úr starfsemi eggjastokka smátt og smátt í um það bil tíu til fimmtán ár, svo og því magni hormóna sem líkaminn framleiðir. Tímabilið þegar dregur úr starfsemi eggjastokka má kalla BREYTINGASKEIÐ.
Að lokum gerist það að eggjastokkarnir framleiða ekki nóg estrógen og progesterón til að framkalla egglos og þar af leiðandi mánaðarlegar blæðingar. Afleiðingarnar eru þær að blæðingar verða óreglulegar, hugsanlega með hitakófum, depurð, geðsveiflum og vanlíðan. Þetta tímabil óreglulegra blæðinga sem varir venjulega í eitt til þrjú ár áður en blæðingar hætta alveg má hugsa sér að kalla FYRIRTÍÐAHVÖRF (eins og talað er um fyrirtíðaspennu). Þegar síðan að því kemur að konan hættir alveg að fara á túr (í að minnsta kosti ár) er talað um TÍÐAHVÖRF.
Hve mikil tíðahvarfaeinkennin eru eða lítil ræðst af því hversu hratt breytingin á sér stað, hve mikinn tíma líkaminn fær til að laga sig að breyttum hormónabúskap og hve mikið estrógen líkaminn fær úr öðrum áttum (ekki frá eggjastokkum). Eftir tíðahvörf kemur mest af estrógeni frá karlhormón sem nýrnahetturnar framleiða. Fitu – og vöðvafrumur breyta honum í estrógen. Því meiri vöðvar og fita sem finnst í líkamanum, þeim mun meira verður til af estrógeni sem ekki er framleitt í eggjastokkum. Það tíðahvarfaeinkenni sem flestar konur tala um (og kvarta yfir) á þessu skeiði eru hitakóf.
Hugsanlega ferðu á eðlilegan hátt í gegnum breytingaskeið og tíðahvörf og verður naumast vör við hormónabreytingarnar af því að þær gerast hægt og rólega á löngum tíma. Hugsanlega hefurðu umframforða af fitu eða vöðvum (jafnvel hvoru tveggja) sem framleiðir nýjar birgðir af estrógeni. Kannski byrjaðir þú að taka hormóna um leið og þú varðst vör við óreglu á blæðingum. Hvernig sem því er varið, hefur það auðveldað þér breytingarnar. Hins vegar má gera ráð fyrir að flestar sem þetta lesa hafi upplifað tíðahvörf á “óeðlilegan” hátt vegna þess að þær greindust með brjóstakrabbamein og þurftu eða þurfa að fara í meðferð við því.
ÞB