Hvaða þýðingu hafa tíðahvörf fyrir þig?
Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að eldast og vera komin úr barneign? Endalok mánaðarlegra leiðinda og fyrirtíðarspennu? Endalok frjóseminnar? Að nú getir þú ekki talist ung lengur? Konur upplifa tíðahvörf á mjög mismunandi hátt, sumar á jákvæðan, aðrar á neikvæðan. Afstaða þín skiptir ekki öllu máli, því það er margt sem þú getur gert til að vinna með hugarfar þitt og ástand líkamans.
Vel er hugsanlegt að það sem þú upplifir nú sé eitthvað annað en tíðahvörf. Oft er skuldinni skellt á blessaða hormónana þegar það eru í rauninni blákaldar staðreyndir daglegs lífs sem eiga sökina. Hafi greiningin komið fast á hæla tíðahvarfa og þú upplifað það að missa brjóst og tími þinn og orka að mestu farið í að vera í krabbameinsmeðferð, hefur allri tilveru þinni verið ógnað, ef ekki beinlínis tvístrað.
Þau eru ófá brotin sem þarf að safna saman. Eftir því sem lífinu vindur fram og þú verður miðaldra skjóta fleiri erfið verkefni upp kollinum. Það ætti að vera til orðatiltæki sem segði: 'Ekki er fyrir aumingja að eldast,' því það er satt! Hreiðrið er tómt, þú ert skilin, orðin ekkja, foreldrarnir veikir, mamma að deyja, afkvæmin í vondum málum. Allt eru þetta algeng vandamál á þessu skeiði ævinnar. Burtséð frá öllum hormónabreytingunum eru streita, einangrun og depurð algengt ástand og verður æ algengara eftir því sem aldurinn færist yfir.
Spurningin sem raunverulega þarf að svara er þessi: Hvað ætlar þú að gera í málinu? Lifnaðarhættir þínir hafa áhrif á það hvernig þú eldist. Þeir hafa ekkert síður áhrif á það hvernig þú upplifir það að eldast. Er tilvera þín yfirfull af streitu – ertu að reyna að komast yfir að gera of margt – eða hefur þér lærst að taka hlutunum eins og þeir koma fyrir? Liggurðu langtímum saman fyrir framan sjónvarpið eða ferðu í hressandi göngutúr? Ertu vakandi fyrir því sem þú leggur þér til munns? Er það steik og franskar – og tómatsósan eina “grænmetið” – eða ertu staðföst grænmetisæta sem leggur mikla áherslu á baunir og brokkolí og sukkar bara í ábætisréttum á hátíðarstundu?
Með því að taka þér tak á þessum þremur sviðum getur þú bætt tilveru þína til muna:
-
Hreyfing í þeirri mynd sem þú kýst helst dregur úr streitu og álagi af öldrun. Að halda líkamanum í góðu formi hjálpar þér að halda jafnvægi, liðleika og líða vel andlega og líkamlega.
-
Hollt mataræði hjálpar líkama þínum að starfa á réttan hátt og leyfa þér að lifa lengur.
-
Allt sem dregur úr streitu, þar með talin hugleiðsla, slökun, tómstundagaman eða afþreying, gerir hvern dag ánægjulegri en ella. Safnaðu góðum dögum!
ÞB