Tíðahvörf og meðferð við brjóstakrabbameini
Ummæli læknis:
“Eðlileg tíðahvörf geta verið nógu erfið en þegar þau eru framkölluð með skurðaðgerð er það eins og keyra á vegg á 100 km hraða.”
— Melody Cobleigh, M.D.Sumar krabbameinslyfjameðferðir geta neytt eggjastokkana til að láta af störfum innan fáeinna mánaða frá því að meðferð hófst. Þetta eru s.k. lyfjatíðahvörf. Um helmingur kvenna undir 35 ára aldri sem fær lyfjameðferð með CMF (cytoxan, methotrexate, fluorouracil), hættir að hafa blæðingar. Hið sama má segja um 80% kvenna á aldrinum 35-44 ára og nánast allar konur sem orðnar eru 45 ára. Við lyfjameðferð med adriamycin eru líkur á varanlegum tíðahvörfum örlítið minni hjá konum undir fertugu, en nánast þær sömu og með CMF hjá konum eldri en fertugum. Þess eru dæmi að tíðahvörf framkölluð af meðferð með krabbameinslyfjum séu aðeins tímabundin og egglos og blæðingar hefjist á ný.
Hitakóf kunna að ágerast þegar meðferð með tamoxifeni (eða öðru andhormónalyfi sem á að vinna gegn östrógeni) tekur við að lokinni meðferð með krabbameinslyfjum. Þótt lyfið sjálft framkalli ekki tíðahvörf, minna sumar aukaverkanir á einkenni tíðahvarfa og einkennin geta orðið viðvarandi í nokkurn tíma.
Hafir þú að jafnaði tekið hormónalyf og þurft að hætta því um leið og þú greindist með brjóstakrabbamein, gætirðu hugsanlega upplifað einhvers konar sambland af eðlilegum tíðahvarfaeinkennum og einkennum lyfjatíðahvarfa. Þess konar “fráhvarf” stafar af því að östrógenmagnið snarminnkar.
Auk meðferðar við brjóstakrabbameini geta ýmsar aðrar læknismeðferðir flýtt fyrir tíðahvörfum. Hafi eggjastokkar verið fjarlægðir með skurðaðgerð, verða tíðahvörf staðreynd á einni nóttu, s.k. brottnámstíðahvörf. Þetta er mjög erfið leið inn í tíðahvörf og mikið áfall fyrir líkamann.
ÞB