Að takast á við tíðahvörf og einkenni þeirra
Eftir því sem breytingaskeiðið færist nær (eða hellist yfir þig fyrirvaralaust) koma áhyggjur af þessum venjulegu og alþekktu vandamálum og einkennum: hitakófum, þyngdaraukningu, lenggangaþurrki, geðsveiflum, orkuleysi, líflausri húð og hári. Þegar fram í sækir bætast við áhyggjur af beinþynningu, hjarta- og æðasjúkdómum og hvernig yfirleitt er hægt að lifa lífinu til fulls og þokkalega hamingjusamlega.
Kannski finnurðu aðeins fyrir minni háttar einkennum, en til er í dæminu að þú finnir fyrir þeim öllum. Við venjulegar aðstæður ætti þér ekki að finnast ástæða til flýta þér að ákveða hvernig þú ætlar að taka á málunum. Hafi einkennin hins vegar byrjað vegna þess að þú lentir í tíðahvörfum vegna meðferðar með krabbameinslyfjum, skurðaðgerð eða þurftir snögglega að hætta á hormónalyfjum og það er eitthvert ákveðið einkenni sem hindrar þig í að sinna venjubundnum athöfnum, er þér hugsanlega í mun að finna eitthvað sem getur orðið að liði.
Úrræðin sem fylgja hér á eftir eru margs konar, allt frá því að breyta um lifnaðarhætti, leita óhefðbundinna leiða eða fá hefðbundin lyf. Flestar áhrifaríkar meðferðir fela í sér einhverjar aukaverkanir, en hugsanlegir kostir ættu að vega mun þyngra.
Byrjaðu á einfaldasta og vægasta ráðinu með sem flestum kostum og minnstum aukaverkunum fyrir sjálfa þig og fetaðu þig síðan varlega yfir í sterkari og áhrifaríkari meðul gerist þess þörf. Hæfileg hreyfing eða líkamsæfingar er dæmi um leið sem getur bætt líðan án eftirkasta: bein og hjarta styrkjast, þyngdinni er haldið í skefjum, hitakóf minnka, svefninn batnar, orkan eykst, kynhvötin lifnar og húðin ljómar – án aukaverkana.
Sterkasta úrræðið er estrógenmeðferð sem margir læknar mæla nánast sjálfkrafa með við konur sem ekki hafa greinst með brjóstakrabbamein. Hafir þú aftur á móti greinst með brjóstakrabbamein, verður þér nánast sjálfkrafa sagt að þú getir ekki fengið estrógenmeðferð. Kannaðu málið. Finndu lækni sem er tilbúinn að skoða þitt tilfelli sérstaklega og lítur á þig sem einstakling.
Fáir læknar eru tilbúnir að taka þá áhættu að skrifa upp á estrógen því að vitað er að estrógen örvar vöxt brjóstafrumna. Líði þér illa og finnst þú verða að fá einhverja lausn hvað sem það kostar, skaltu nota sköpunargáfuna og kynna þér allar leiðir sem hugsanlega geta komið að gagni.
ÞB