Depurð, þunglyndi, þreyta

Meðferð við brjóstakrabbameini getur gert það að verkum að þú ert döpur, þreytt eða þunglynd. Þessar tilfinningar eiga sér margar og mismunandi orsakir: Það að þú skyldir greinast með krabbamein er eitt, meðferðin sem þú gekkst undir (eða ert í) annað. Fleiri orsakir kunna að vera öldrun, hormónabreytingar, eitthvað sem er að gerast í lífi þínu og að lokum hvernig þú sjálf ert að upplagi (erfðaþættir).

Hafi þér verið varpað inn í skyndileg tíðahvörf, hugsanlega heilum áratug fyrr en náttúran ætlaði þér, með tilheyrandi hraðvaxandi hormónatapi, gætir þú fallið ofan í þunglyndi ekki ósvipað fæðingarþunglyndi. Eðlileg tíðahvörf eru ekki talin framkalla aukna hættu á þunglyndi.

Depurð er eðlilegur hluti af því að upplifa það að greinast með krabbamein, eitthvað sem þú þarft að geta tjáð og komast í gegnum. Leyfir þú ekki sjálfri þér að vera döpur og syrgja, má búast við að óuppgerð sorg komi í veg fyrir að þér fari að líða betur andlega og líkamlega. Þreyta, algengasta aukaverkun krabbameinsmeðferðar, getur komið hart niður á þér, einkum ef hitakóf ræna þig svefni og hvíld. Truflist vinnudagurinn einnig er ekki ólíklegt að þér finnist þú yfirþyrmd og jafnvel hálflömuð.

Hvernig er hægt að þekkja í sundur og aðgreina þreytu, depurð og sjúklegt þunglyndi? Einkenni þunglyndisi eru meðal annars:

  • Þér finnst þú ekki ráða við neitt

  • þér finnst þú bjargarlaus og allt vonlaust

  • þú getur ekki hugsað þér að taka þér neitt fyrir hendur

  • þér finnst erfitt að einbeita þér

  • þú verður gleymin

  • þú færð kvíðaköst

  • þú hefur enga ánægju af því sem áður veitti þér gleði

  • þú hefur misst matarlyst og áhuga á kynlífi

  • þú átt erfitt með að sofa.

Hafirðu ástæðu til að ætla að þú sért þunglynd er fyrsta skrefið að leita hjálpar. Talaðu við geðlækni sem getur orðið þér að liði. Þótt þú kunnir að hafa áhyggjur af því að vera að byrja á nýjan leik að taka lyf, geta þunglyndislyf verið mikilvægt og heillavænlegt skref í þá átt að létta af þér þunglyndi, depurð og kvíða. En það er ekkert síður áríðandi að fá hjálp með því að segja frá því sem er að angra þig og fá aðstoð frá fólkinu í kringum þig.

Liðið getur allt að einn og hálfur mánuður áður en lyfin fara að skipta sköpum. Notaðu tíminn til að fara í viðtöl hjá geðlækninum sem skrifar upp á lyfin fyrir þig. Stuðningshópur nægir ekki til að hjálpa þér á þessu stigi þótt hann geti hjálpað þér seinna meir þegar þú ert komin á réttan kjöl.

Til athugunar í sambandi við lyfjagjöf: Farðu til sérfræðings í meðferð með þunglyndislyfjum til þess að fá sem allra besta tilsögn og handleiðslu hjá besta hugsanlega lækninum. Krabbameinslæknir þinn er sérmenntaður í krabbameinslækningum, ekki í meðferð við þunglyndi. Leitaðu hjálpar sem allra fyrst til að koma í veg fyrir alvarleg vandamál og langtíma meðferð. Stundum getur aðeins ein heimsókn til geðlæknis gert gæfumuninn.

Þunglyndi er meira en aukaverkun krabbameinsmeðferðar eða viðbragð við hættulegum sjúkdómi. Sé þunglyndið vægt geta óhefðbundnar leiðir og atferlismeðferð nægt. Östrogenhormónar kunna að hjálpa konum sem taka lyf og hafa ekki greinst með brjóstakrabbamein en þjáist þú af alvarlegu þunglyndi, getur hormónameðferð við tíðahvörfum ekki aðeins verið gagnslaus – hún getur gert ástandið verra.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB