Minnisglöp og þyngdaraukning

Konur á breytingaskeiði hafa sumar þá sögu að segja að þeim finnist þær óskýrar í kollinum og hugurinn ekki jafn skarpur og áður. Ekki er ljóst að hvaða marki tíðahvörf hafa áhrif á minni eða hvort þetta er afleiðing eðlilegrar öldrunar. Ljóst virðist þó af ýmsum rannsóknum að roskið fólk á oft erfiðara með að festa sér nýjar upplýsingar í minni en þeir sem yngri eru, en báðir hóparnir eiga hins vegar jafn auðvelt með að sækja gamlar upplýsingar í minnið.

Estrógen hefur áberandi jákvæð áhrif á minnið. Rannsóknir sýna að estrógenmeðferð getur bætt skammtíma- og orðaminni með því að styrkja taugafrumur, einkum í helstu minnisstöð heilans, drekanum (hippocampus). Estrógen virðist ekki hafa mikil áhrif á skipulagshæfileika eða rýmisminni.

Þótt flestum okkar gæti ekki staðið meira á sama um tíðahvörf rottunnar sem slíkrar, er þetta áreiðanlega tilraunadýr að kenna vísindamönnum ýmislegt um estrógen og heilann sem gæti átt við konur. Þegar estrógenmagn í heila rottu er eðlilegt gerist þrennt:

  1. Taugafrumur vaxa vel og eru heilbrigðar.

  1. Fjöldi tenginga á milli taugafrumna eykst og gerir þær sífellt færari um að flytja boð.

  1. Prótínið sem á þátt í að undirbúa boð sem send eru milli frumna eykur framleiðslu sína.

Af þessu má að minnsta kosti draga þá ályktun að rotta sem ekki er komin á breytingaskeið geti munað hvar ostinn er að finna frá einum degi til annars, frá einni viku til annarrar.

Upplýsingar úr rannsóknum sem enn eru á byrjunarstigi gefa vísbendingar um að estrógen kunni að draga úr hinum ískyggilegu afleiðingum Alzheimer sjúkdómsins. Konur á estrógenlyfjum virðast fá sjúkdóminn síðar á ævinni en aðrar konur, hann verður ekki eins alvarlegur og gengur hægar fram. Enn er ekki vitað hvort hægt er að hefja estrógenmeðferð og hafa marktækt gagn af henni eftir að Alzheimer sjúkdómur greinist á annað borð.

Hægt er að nota tiltækar upplýsingar um estrógen og velta fyrir sér hvort hæfileiki heilafrumna til að taka á móti, senda og setja í geymslu upplýsingar minnki vegna þess að estrógenmagn er lítið í líkamanum eða vegna þess að tekin eru lyf sem hindra áhrif estrógens (eins og tamoxifen) og þannig slævist minnið. Með samanburðarrannsókn hefur verið kannað hvort einhver munur er á minni kvenna sem fengu tamoxifen og annarra sem var gefin lyfleysa (eitthvað sem lítur út eins og lyf en hefur engin virk efni). Niðurstöðurnar bentu til að minnistapið væri svipað hjá báðum hópunum.

Þreyta, áhyggjur og þunglyndi hafa gríðarleg áhrif á minni. Meðferð með krabbameinslyfjum getur einnig haft áhrif á minni. Geislun á brjóstasvæði hefur engin áhrif á skammtímaminni eða aðra heilastarfsemi, en þegar heilinn er allur geislaður vegna meinvarpa getur það haft mjög mikil áhrif.

Rétt eins og á allt annað geta erfðaeiginleikar haft áhrif á það hvernig minnið starfar.

Minnið er einnig mjög háð þjálfun hugans – hve oft og hve lengi í einu þú notar minnið eða aðrar heilastöðvar. Nýjar upplýsingar benda til þess, gagnstætt því sem áður var talið, að fjöldi heilafrumna sé ekki föst stærð. Engu skiptir hve gömul þú verður, heilinn getur samt haldið áfram að framleiða nýjar frumur. Rétt eins og á við um aðra hluta líkamans starfar heilinn því betur sem þú þjálfar hann meira og oftar. Haltu því huganum starfandi; haltu áfram að læra og tileinka þér eitthvað nýtt, hrærðu upp í minninu með því að prófa sjálfa þig á atriðum sem þú vilt gjarnan muna – símanúmerum eða afmælisdögum í fjölskyldunni, ljóðum eða vísum sem þú lærðir einhvern tíma o.s.frv.

Þyngdaraukning

Eftir tíðahvörf taka margar konur að þyngjast jafnt og þétt. Með aldrinum hægir á efnaskiptum líkamans svo að hann þarf færri hitaeiningar til að viðhalda eðlilegri þyngd. Hreyfir þú þig minna með aldrinum en heldur áfram að innbyrða sama fjölda hitaeininga og þegar þú varst yngri muntu óhjákvæmilega þyngjast. Að breyta ævilöngum matarvenjum sínum er ekki létt, en þyngdaraukning getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir konur sem hafa greinst með krabbamein í brjóstum. Í nokkrum rannsóknum hafa fundist tengsl milli offitu og aukinnar tíðni brjóstakrabbameins.


ÞB