Þurrkur í leggöngum

Um leið og östrógenmagn minnkar til mikilla muna við tíðahvörf þynnist slímhúðin í leggöngunum, hún glatar teygjanleika sínum og framleiðir minna af smurningi. Samfarir geta orðið óþægilegar og jafnvel sársaukafullar. Sársauki við samfarir getur að miklu leyti stafað af því að ytri sköpin (svæðið utan við leggangnaopið) eru aum. Reyndu að forðast sterkar sápur og krem.

Sleypiefni

Þurfir þú á smurningi að halda gætirðu viljað prófa sleypiefni eins og Astroglide eða K-Y eða annað sem ekki er svo þunnt að það dropi út jafnharðan.

Sveppasýking

Sveppasýking er eitthvað sem hægt er að fá og er algeng aukaverkun sýklalyfja, steralyfja og sumra krabbameinslyfja. Sýkingin sest þá að í fellingum slíðurs eða í skapabörmum og veldur óþægindum, þykkri hvítri útferð og óþef. Hreinsaðu svæðið afar varlega. Þú gætir þurft að nota sveppaeyðandi krem eða pillur sem ýmist fást án lyfseðils eða er ávísað á af lækni (Monistat, Terazol, Diflucan). Lotrisone sem er í einu lyfi bæði sveppaeyðandi og steralyf, getur dregið úr sviðanum í ytri sköpum sem oft fylgir sveppasýkingu.

Útferð

Óþægileg útferð getur einnig fylgt tíðahvörfum. Af þeim konum sem fá tamoxifen er líklegt að 80% verði ekki varar við nein einkenni í kynfærum, 10% verða varar við þurrk í leggöngum og 10% fá útferð. Með því að lýsa einkennum þínum skýrt og skilmerkilega getur kvensjúkdómalæknir auðveldað þér að fá þá bót meina sem þú þarft á að halda.

Östrógenlyf í leggöng

Hafi óþægindi þín í kynfærum ekkert lagast þrátt fyrir tilraunir þínar til að nota eitthvað af því sem hér hefur verið nefnt, ræddu þá við lækni þinn um hvort þú getir hugsanlega notað vægt östrógenkrem eða Estring (hring úr plasti sem er fylltur af östrógeni og komið fyrir í leggöngum). Þannig meðferð getur stuðlað að því að veggir leggangnanna þykkni og fá smurningu, en eitthvað af því fer þó óhjákvæmilega út í blóðið.

Talið er að estradiol (Vagifem®) fari auðveldlega út í blóðið, estrone síður og estriol aðeins að mjög litlu leyti. Litlar upplýsingar eru þó til um þetta. Sumar rannsóknir benda til þess að estriol kunni að hafa minni áhrif á brjóstvef en estradiol.

Komist þú og læknir þinn sameiginlega að þeirri niðurstöðu að í lagi sé fyrir þig að nota östrógenkrem við leggangaþurrki eða sársauka, þarftu hugsanlega bara mjög lítið af því. Læknir þinn kynni að ráðleggja þér að byrja með skammt sem væri aðeins 0,1 milligramm af östrógenkremi á dag og þá þarftu aðeins að setja örlítið af því upp í leggöngin í þrjár til fjórar vikur og minnka það svo niður í eitt til tvö skipti í viku.

ÞB