Verkir

Hjá konum sem fengið hafa brjóstakrabbamein getur stór þáttur í því að takast á við sjúkdóminn og meðferðina verið sá að sigrast á verkjum. Verkir eru algeng aukaverkun meðferðar en einnig hliðarverkun krabbameins.

Þú þarft ekki óhjákvæmilega að þjást. Með réttum aðferðum er hægt að lina verki flestra og jafnvel losna alveg við þá.

Verkjalyf hafa sífellt orðið þróaðri og áhrifaríkari. Þau eru gefin eða tekin á fleiri vegu en áður þekktist, vitneskja um hvernig best sé að nota þau hefur aukist og lyfin hafa yfirleitt færri aukaverkanir. Nú er einnig vitað hvernig óhefðbundin úrræði, þar sem ekki er notast við lyfjagjafir, geta linað og jafnvel læknað verki.

Reyndu að herða upp hugann. Það er eðlilegt að manneskju sem þjáist af verkjum finnist allt ómögulegt, hún sé þreytt og niðurdregin. Þessi hluti brjostakrabbamein.is er helgaður því að hjálpa þér að sigrast á þessum tilfinningum með tillögum um hvernig greina má verki þína, meðhöndla þá og leggja þannig drög að verkjalitlum eða verkjalausum bata.

Sigurður Böðvarsson, læknir, sérgrein lyf- og krabbameinslækningar, hefur góðfúslega lesið yfir íslenska þýðingu þessa hluta brjostakrabbamein.is


ÞB