Bólga í slímhúð
Sum krabbameinslyf (svo sem 5-fluorouracil og xeloda) geta framkallað slímhúðarbólgu sem beina afleiðingu lyfjameðferðar. Slímhúðarbólga lýsir sér í því að sár koma á slímhúð í munnholi, hálsi, endaþarmi og leggöngum og hún verður rauð og þrútin.
Slímhúðarbólga í munni eða hálsi kallar fram tilfinningu þess að vera með kökk í hálsinum og finnast sárt að kyngja. Slímhúðarbólga í leggöngum veldur sársauka, útferð og stundum kláða.
Slímhúðarbólga getur líka stafað af sveppasýkingu eða óhjákvæmilegri geislun á vélindanu (rörinu sem liggur frá munni ofan í maga). Sveppasýking stafar af því að ónæmiskerfið er veiklað eða bælt meðan á lyfjameðferð stendur eða þú tekur inn stera eða sýklalyf. Svona sveppasýking framkallar hvíta skán í munnholinu (minnir svolítið á skyr eða kotasælu) og útferð úr leggöngum.
Áhrifaríkasta aðferðin til að bæta ástandið er að breyta mataræðinu, nota lyf og heilbrigða skynsemi.
Eftirfarandi ráð geta auðveldað þér að takast á við verki sem stafa af slímhúðarbólgu:
-
Best er að forðast allan heitan mat, mikið kryddaðan mat og mat með hátt sýrustig (tómatsósu, appelsínusafa, greipaldinsafa) og láta kaffi eiga sig.
-
Þægilegast er að neyta kaldrar mjólkurvöru.
-
Prófaðu að fá þér kaldan sýrðan rjóma fyrir máltíð til að þekja munnholið og fæðugöngin og draga þannig úr óþægindum. Finnist þér sýrður rjómi vondur, geturðu bætt í hann vanilludropum eða ávaxtaþykkni.
-
Þekjumyndandi lyf eins og munnskol með lidocaine geta komið að gagni.
-
Ekki taka inn stórar töflur. Myldu þær og blandaðu saman við eplamauk áður en þú kyngir.
-
Við þurrk í leggöngum skaltu nota sleipiefni.
Sveppasýkingu í munni má meðhöndla með sveppaeyðandi lyfjum eins og fluconazole (tegundarheiti: Diflucan), nystatin (tegundarheiti: Mucostatin) eða ketoconazole (tengundarheiti: Nizoral).
Sveppasýking í leggöngum gæti látið undan síga með hefðbundnum lyfjum (t.d. Terazolkremi sem er sett í leggöngin eða Diflucan) eða hreinni jógurt með lifandi sýrusæknum gerlum sem sett er upp í leggöngin. Nota má kalkúna- eða rjómasprautu til að koma jógúrtinni upp í leggöngin (má taka framan af stútnum til að gera opið stærra) eða einfaldlega nota fingur eða skeið.
Að gera leggöngin súrari með þunnri vatns- og ediksblöndu er líka einfalt, ódýrt og áhrifaríkt lyf við sveppasýkingu í leggöngum.
*Málsgrein með stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB