Kviðverkir

Algengustu kviðverkir og óþægindi sem rekja má beint til aukaverkana af krabbameinslyfjum tengjast hægðtruflunum. Afleiðingarnar eru þrenns konar: hægðatregða, vindverkir og niðurgangur.

Verkir og verkjalyf – sér í lagi ópíumlyf – valda því að þarmarnir hægja á starfsemi sinni og afleiðingin verður hægðatregða. Stundum geta hægðirnar stöðvast alveg og er þá talað um hægðateppu.

Um leið og þú ferð að fá ópíumlyf við verkjum þarftu að taka inn hægðamýkjandi eða væg hægðalosandi lyf. Ræddu þetta við lækni þinn ef ekki hefur verið minnst á þetta fyrr. Skoðaðu líka það sem er að finna annars staðar á síðunni um hvað hægt er að gera við alvarlegri hægðateppu.

Niðurgang og vindverki sem eru afleiðing af krabbameinslyfjum og geislameðferð má stilla með því að fara yfir í mataræði sem inniheldur lítinn vökva (engir ávextir eða grænmeti og lítið af trefjum) og með því að nota lyf eins og diphenoxylate og atropine (Pepto-Bismol®, Imodium AD® eða Lomotil® og/eða dicyclomine (Bentyl®).

Sýklalyf geta valdið niðurgangi. Byrja þarf á að taka hægðasýni til að athuga af hvaða völdum niðurgangurinn er vegna þess að hann gæti orsakast af sýkingu sem meðhöndluð er með annars konar sýklalyfi.

Konur sem gengist hafa undir TRAM flipa­ aðgerð til að fá nýtt brjóst, finna fyrir kviðverkjum. Venjulega standa óþægindin í nokkra mánuði og stafa af “magastrekkingunni” sem aðgerðin hefur í för með sér.

Örvefur eftir skurðaðgerð eða krabbamein getur hindrað hægðir og framkallað krampakenndan magaverk og þembu með eftirfylgjandi ógleði og uppköstum. Verðir þú fyrir þessu, skaltu samstundis láta skoða þig og fá meðferð hjá krabbameinslækni þínum eða skurðlækni.

Hjá konum með langt gengið krabbamein (meinvörp) getur verkur í kviðarholinu miðju stafað af stækkuðum eitlum sem þrýsta á líffæri og taugar. Lifrarverkir í kviðnum ofanverðum hægra megin geta stafað af krabbameini í lifrinni sem strekkir á himnunni sem umlykur hana.

Þegar verkir á einum eða tveimur stöðum reynast óviðráðanlegir og fara versnandi – og þetta eru einu svæðin þar sem meinvörp er að finna – er hægt að beita geislum. Venjulega er bara eitt svæði geislað í einu. Sé svæðið stórt, er geislum ekki beitt því að þeir geta valdið of miklum aukaverkunum.

Sértu með dreifð meinvörp (mörg sýkt svæði í líkamanum) og verkurinn sem þú finnur fyrir í kviðnum eða annars staðar slæmur, gæti læknir þinn mælt með því að þú fáir ópíumlyf í æð eða undir húð.

ÞB