Bein- og liðverkir
Verkir í beinum og liðamótum kunna að stafa af krabbameinsmeðferð, lyfjagjöf, einhverju ótengdu krabbameininu eða frá meinvörpum (þegar krabbameinsfrumur dreifa sér). Stundum er ekki hægt að finna upptök verkja.
Meðferð við verkjum af þessu tagi felst í lyfjagjöf og styrkjandi æfingum. Tíminn er líka góður læknir vegna þess að sumir verkir í beinum og liðamótum hverfa sjálfkrafa eftir fáeinar vikur eða mánuði.
Verkir af völdum meinvarpa
Þegar krabbamein dreifir sér í beinin veldur það yfirleitt verkjum. Finnist tilfinnanlegir beinverkir aðeins á einum eða örfáum stöðum er besta leiðin sú að fjarlægja krabbameinið til að losna við þá.
Staðbundin geislameðferð er áhrifarík leið til að lækna sársaukafull meinvörp í beinum. Þessi tegund meðferðar veitir í langflestum tilfellum mikla eða nær algjöra lausn frá verkjum og það í umtalsverðan tíma án aukaverkana sem fylgja því að gefa ópíumverkjalyf með tilheyrandi deyfð og hægðatregðu.
Verki sem stafa af dreifðum meinvörpum er best að meðhöndla með ópíum- og bólgueyðandi lyfjum. Krabbameinslyfjameðferð eða tamoxifen (andhormónalyf) getur verið áhrifarík leið til að losna við krabbameinsfrumur á öllum sýktum svæðum í beinum. Hægt er að geisla eitt eða fleiri svæði þar sem verkirnir eru hvað mestir.
Dreifða verki er líka hægt að meðhöndla með bisfosfonat lyfjum eins og zoledronic acit (Zometa®) eða pamidronate disodium (Aredia®). Þessi lyf stöðva beineyðingu af völdum meinvarpa, draga úr sársauka og halda kalkmagni í blóði eðlilegu.
Stundum getur það hjálpað að sjá til þess að verkjasvæðið sé ekki á hreyfingu. Þú getur t.d. verið með hönd í fatla þar til þú hefur lokið geislameðferð við meinvarpi í öxl sem veldur þér sársauka. Stundum þarf fólk að fara í bæklunaraðgerð til að koma í veg fyrir eða laga brot sem stafa af því að bein hafa veiklast af völdum krabbameins.
Verkir sem ekki stafa af meinvörpum
Sumir fá langvarandi og þrálát óþægindi eða verki í leggina, vöðva umhverfis bein og í liðamót. Ígrædd brjóst geta hugsanlega aukið þrýsting á viðkvæmt yfirborð umhverfis rifbeinin.
Lyfjameðferð við krabbameini framkallar verki í mjöðmum, fót- og handleggjum. Það getir geist á meðan þú ert í meðferð og kann að versna við hverja umferð lyfjagjafar. Verkirnir geta orðið viðvarandi í langan tíma – mánuði og jafnvel í ár – eftir að meðferð lýkur. Góðu fréttirnar eru þær að fyrr eða síðar MUNU þeir hverfa.
Verkir af þessum toga tengjast taugum, vöðvum, liðum og liðböndum. Með hefðbundnum aðferðum má hafa áhrif á svona verki með krampalyfjum og þrífasa þunglyndislyfjum, steralausum bólgueyðandi lyfjum og ópíumlyfjum. Einnig eru til margar óhefðbundnar leiðir til að draga úr eða eyða verkjum.
Einstaka sinnum gerist það að verkirnir sleppa ekki. Lendir þú í því skaltu biðja um viðtal við verkjasérfræðing.
Meðferð með tamoxifeni (andhormónameðferð) getur framkallað verki og stirðleika sem líkist mest liðagigt. Sterafrí bólgueyðandi lyf gagnast við verkjum af þessum toga. Lagist þú ekki, gæti læknir þinn hugsanlega ávísað á ópíumlyf.
Hiti, nudd og sund hefur allt saman góð áhrif á verki í beinum og liðum sem ekki stafa af meinvörpum krabbameins. Jógaæfingar gera líka gagn því þær teygja og styrkja vöðvana sem aftur dregur úr verkjum í burðarvöðvum og mjúkum vefjum.
ÞB