Verkir í holhönd, brjósti og bringu

Eftir uppskurð fara margar konur að finna fyrir undarlegri blöndu af doða og verk í holhöndinni (undir handleggnum) og umhverfis brjóstsvæðið. Það stafar af því að ekki varð hjá því komist að skadda litlar taugar sem teygðar voru og togaðar og skornar í sundur við aðgerðina.

Geislun getur einnig aukið viðkvæmni tauga, hörunds, vöðva og vefja í brjóstinu.

Þegar taugarnar taka að vaxa á ný geturðu fundið fyrir einkennilegri tilfinningu eins og skordýr sé að skríða á þér eða þig kann að klæja eða þótt sárt að snerta eða láta snerta þig. Óþægindin kunna að hverfa af sjálfu sér eða orðið viðvarandi og þú vanist þeim.

Bólgueyðandi steralaus lyf eins og acetaminophen og ibuprofen vinna oftast vel á verkjum sem stafa af svona taugaskemmdum. Ópíumlyf virka einnig vel á þessa tegund verkja. Eymsli í húð eftir geislun lagast oft fljótt ef sterakrem (hydrocortisone) er borið á hana.

Eðlilegur verkur í holhönd eftir skurðaðgerð getur orðið langvinnur. Í byrjun er um bráðaverk að ræða vegna þess að það er sú tegund verkjar sem fólk finnur fyrst eftir skurðaðgerð. Hluti óþægindanna stafar af slöngum sem leiddar eru inn til að draga úr bjúgmyndun eftir brjóstnám og sumar tegundir fleygskurðar. Heppilegt er að nota blöndu af ópíum- og kódínlyfjum svo sem Parkodín eða Oxycodone á þessa tegund verkjar í holhönd.

Æfingar geta dregið úr verkjum eftir brjóstnám. *Leiðbeiningar og hollráð er einnig að fá hjá Samhjálp kvenna.

Skömmu eftir skurðaðgerð gætirðu farið að finna fyrir doða- þyngsla- og sársaukatilfinningu. Það er eðlilegt. Fylgstu með því hvort þú ert að fá hita því það gæti bent til sýkingar. Síðar meira – allt frá nokkrum vikum eftir aðgerðina upp í einhver ár – er hugsanlegt að þú farir að finna fyrir vaxandi doða- og sviðatilfinningum. Þá gætirðu þurft að leita þér hjálpar hjá verkjasérfræðingi.

Ef verkurinn er taugaverkur kunna eftirtalin lyf að hjálpa:

  • Þríhringlaga þunglyndislyf svo sem nortirptylene (Noritren®);

  • krampalyf svo sem gabapentin (Neurontin®), phenitoin (Fenatoin Recip®) eða  clonazepam (Rivotril®);

  • staðbundin lyf eins og EMLA (krem sem inniheldur staðdeyfingu) og lidocaine plástrar;

  • flogaveikilyf svo sem lioresal (Lioresal®);

  • capsaicin – sem hægt er að fá án lyfseðils og er búið til úr piparávöxtum. Suma svíður undan þessu en öðrum getur það hjálpað en í byrjun fylgir hitatilfinning;

  • taugablokkerandi meðferð hindrar að taugaboð berist eftir taugakerfinu og er framkvæmd af svæfingarlækni með sérþekkingu á verkjameðferð.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB