Hægðatregða

Fáar, síðbúnar eða óþægilegar hægðir eru einkenni sem fylgja oft sjálfum verkjunum en eru einnig algeng aukaverkun verkjalyfja. Þú getur líka fengið hægðatregðu af hreyfingaleysi, þunglyndi og streitu.

Þemba og þyngslatilfinning sem fylgja hægðatregðu geta gert önnur einkenni sem þú finnur fyrir enn verri. Fáir þú alvarlega hægðateppu, getur það framkallað ógleði og uppköst af því að maturinn sem þú neytir kemst ekkert annað en upp.

Jafn óþægileg og hægðatregða getur reynst er bæði auðvelt að koma í veg fyrir hana og lækna hana.

Notkun ópíumlyfja fylgir undantekningalaust hægðatregða svo þú skalt gera nauðsynlegar ráðstafanir í tíma til að komast hjá henni. Um leið og þú byrjar að taka inn ópíumlyf ættirðu að fá eitthvað sem mýkir hægðir eða hjálpar þeim af stað. Nefni læknirinn þetta ekki við þig að fyrra bragði, skaltu spyrja hann út í þetta atriði.

Á meðan þú ert á lyfjum sem valda hægðatregðu eða -teppu, þarftu að gæta þess að drekka nóg af vatni og neyta trefjaríkrar fæðu, svo sem klíðis og brauðs úr heilkorni. Gættu þess að borða á hverjum degi nóg af ferskum ávöxtum og grænmeti.

Takist þér ekki að hafa hægðir, verður að koma starfseminni aftur í gang. Þú getur byrjað á því að taka inn hægðamýkjandi eða hægðalosandi, hafir þú ekki haft hægðir í einn til tvo sólarhringa.

Líði enn einn til tveir sólarhringar án þess að þú hafir hægðir, skaltu tala við lækni þinn og athuga hvort þér er óhætt að taka lyf sem geta örvað starfsemina. Ef þau koma ekki heldur að gagni, þarftu að láta athuga hvort orsök hægðateppunnar sé sú að saur hefur harðnað í endaþarmi og stíflað hann.

Sértu með stíflu í endaþrami af hörðnuðum saur, þarf fyrst að mýkja hann með glíserínstíl sem er settur upp í endaþarminn. Þér verður gefið eitthvað verkjastillandi til að minnka óþægindin. Að því loknu þarf læknir, hjúkrunarfræðingur eða sjúkraliði að fara með (hanskaklæddum og) smurðum vísifingri upp í endaþarminn til að mylja harðnaða saurinn svo auðveldara verði að losna við hann. Að þessu loknu er gefin stólpípa sem er endurtekin þar til saurinn er horfinn.

Þegar þú hefur losnað við hægðateppuna skaltu halda þig við trefjaríka fæðu, daglega notkun einhvers sem mýkir hægðir (mulin hörfræ, sveskjur, fíkjur) og hugsanlega milt hægðalyf sem heldur þörmunum gangandi. Gerir þú það ekki, endurtekur sama sagan sig óðar en varir: þú ert komin með hægðatregðu og verki. Hafir þú ekki haft hægðir í einn til tvo sólarhringa þrátt fyrir þetta, gætirðu þurft að bæta við lyfi eins og dulcolax áður en þú ferð í háttinn.

ÞB