Munnþurrkur, þvagteppa og hæg öndun
Munnþurrkur
Munnþurrkur getur verið aukaverkun hverskyns ópíumlyfja (sem við ólöglega notkun og fíkn eru einfaldlega kölluð eiturlyf) eða þunglyndislyfja. Venjulega lagast hann með tímanum eftir því sem líkaminn venst lyfinu, en oft er einhver þurrkur viðvarandi.
Til að slá á óþægindi munnþurrks skaltu:
-
Hafa með þér vatn á flösku hvert sem þú ferð,
-
forðast þurran mat,
-
drekka vökva með mat til að hjálpa þér að skola honum niður,
-
sjúga brjóstsykursmola eða nota tyggigúmmí til að örva framleiðslu munnvatns,
-
sértu með mjög mikinn munnþurrk geturðu beðið lækni þinn að upplýsa þig um gervimunnvatn.
Þvagteppa
Stórir skammtar af ópíumlyfjum geta valdið því að þvagblaðran verður full og þanin og þú getur ekki tæmt hana hjálparlaust.
Þessa aukaverkun er hægt að meðhöndla með því að minnka skammt kvalastillandi lyfs (ópíumlyfs). Endrum og sinnum getur verið heppilegt að nota þvaglegg (slöngu sem er þrædd upp í þvagrásina -opið næst leggöngunum) til að tæma blöðruna. Þetta tvennt í sameiningu getur leitt til þess að þér tekst að kasta þvagi hjálparlaust. Sumum gagnast lyf sem heita hytrin (efnafræðiheiti: terazosin) og flomax (efnafræðiheiti: tamsulosin).
Hæg öndun
Hæg öndun getur verið aukaverkun af stórum skammti ópíumlyfs. Hafi hægt svo mjög á andardrætti þínum að það veldur áhyggjum, má snúa þróuninni við með lyfi sem blokkerar (hindrar) ópíumlyfið og kallast naloxone (tegundarheiti: narcan).
Læknir þinn gæti einnig lagt til að skipt yrði yfir í annars konar ópíumlyf.
ÞB