Miðlungs- og miklir þrálátir verkir

Við verkjum af þessu tagi eru fyrst og fremst notuð kvalastillandi lyf eða ópíumlyf. Til eru lyf með langtímaverkun og skammtímaverkun:


Ópíumlyf með langtímaverkun eru til dæmis:

 • oxycodone (OxyContin®)

 • fentanyl (Durogesic®, Fentanyl Actavis®)

 • morfín (Contalgin®)

 • methadón (Metadon Abcur®)

 • tramadolum (Nobligan Retard®, Tradolan®, Tramól®, Zytram®)


Ópíumlyf með skammtímaverkun eru til dæmis:

 • morfín (Morphine Sulfate®)

 • kódín (Parkódín®, Parkódín Forte®)

 • oxycodone (Oxycodone ratiopharm®)

 • hydromorphone (Hydromorphone Hydrocloride Injection USP®)

 • fentanyl – hraðvirkandi (Leptanal®)Skammtar eru gefnir þannig að þeir haldi niðri verkjum allan sólarhringinn. Langverkandi lyf gera lungann úr deginum verkjalausan, og þegar vel tekst til nóttina líka þannig að þú þurfir ekki að fara fram úr til þess að taka nýjan skammt. Lyf með skammtímaverkun eru notuð til að slá á verkjaköst.

Til er fjöldinn allur af ópíumlyfjum sem má reyna að nota til að losna við verki, en þau hafa samt öll sínar aukaverkanir. Því meira sem þú tekur af lyfjum, þeim mun meiri verða aukaverkanirnar. Algeng vandamál eru harðlífi, sljóleiki, ógleði og munnþurrkur. Þessar aukaverkanir eru samt oftast þolanlegri en verkirnir sjálfir og minnka með tímanum. Oft má bæta úr þrálátum vandamálum með öðrum meðferðum svo sem hægðalyfjum, laxeringu, hægðamýkingarlyfjum, ógleðilyfjum og örvandi lyfjum.

Kannski er þér illa við að taka ópíumlyf (eiturlyf) og óttast að það geri þig að forföllnum eiturlyfjaneytanda. Það gerir það ekki. Að taka þessi lyf í samræmi við fyrirmæli læknis til að vinna á verkjum er ekki fíkn. Fíkn er sjúkdómur sem gerir fólki ókleift að hafa stjórn á lyfjaneyslu sinni. Það gerist einna helst hjá þeim sem hafa átt við ólöglega eiturlyfjafíkn að stríða (dópista) eða fólki úr fjölskyldum með mikla fíkniefnasögu. Þú notar eiturlyf til að geta lifað en lifir ekki til að neyta eiturlyfja. Himinn og haf skilur að þetta tvennt!

Stundum ruglar fólk saman lyfjaþoli – þörfinni fyrir að stækka lyfjaskammt til að ná sömu áhrifum – og fíkn. Þú verður ekki ónæm fyrir ópíumlyfjum. Þegar verkir ágerast má meðhöndla þá með því að stækka ópíumlyfjaskammtinn eftir því sem þörf gerist. Eftir margra vikna eða mánaða meðferð er mögulegt að verða líkamlega háður verkjalyfjum og þú kannt að fá fráhvarfseinkenni ef töku þeirra er hætt skyndilega, en á því vandamáli má taka með aðstoð læknisfræðinnar þegar rót sársaukans hefur verið fundin og henni eytt.

Steralaust bólgueyðandi lyf má gefa samhliða ópíumlyfi, einkum við gigtarverkjum eða vegna meinvarpa í beinum. Auk þess eru til lyf sem kallast stoðlyf (coanalgesics) sem styrkja áhrif bæði ópíumlyfja og sterafrírra bólgueyðandi lyfja. Þessi lyf eru yfirleitt notuð við öðrum kvillum en geta einnig gagnast við verkjameðferð.

Hvaða stoðlyf verður skrifað upp á fyrir þig ræðst af því hvaða lyf þú tekur að jafnaði, en það kann að vera eitt af þessum:

 • þríhringlaga þunglyndislyf,

 • krampa- eða flogaveikilyf,

 • ofnæmislyf,

 • steralyf,

 • róandi og vöðvaslakandi lyf,

 • bisphosponat,

 • verkjastillandi krem.

ÞB