Vægir til miðlungsmiklir þrálátir verkir

Flest verkjameðferð byrjar með því að notað er parasetamol (Parasetamol®, Paratabs®,Panodil®) eða annað bólgueyðandi lyf án stera. Þessi lyf duga oftast nær á væga en viðvarandi verki eins og verki í brjósti og holhönd eftir skurðaðgerð.

Bólgueyðandi og sterafrí lyf eru mörg, þar á meðal:

  • ibuprofen (Alvofen Express®, Burana®, Íbúfen®, Íbuxin®)

  • naproxen (Alpoxen®, Naproxen Mylan®)

  • ketoprofen (Orudis®)

  • indomethacin (Indometacin Actavis®, Confortid®)

  • piroxicam (Feldene®)

  • nabumetone (Relifex®)

Mjög er einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við bólgueyðandi lyfjum án stera og fer það eftir tegundum og skömmtum. Minnki verkurinn ekki eða hverfi við að nota eina tegund, getur önnur tegund hugsanlega hjálpað þér.

Þú gætir þurft að gera tilraun með nokkrar tegundir áður en þú finnur þá réttu. Taktu aldrei inn meira en læknir fyrirskrifar á lyfseðlinum eða meira en framleiðandinn mælir með. Kannski væri ráð að fá lækninn til að skrifa ekki upp á of margar töflur í einu fyrr en þú hefur fundið þá tegund sem virkar best á þig.

Bólgueyðandi lyf af þessari gerð (steralaus) geta valdið óþægindum frá maga, brjóstsviða, bjúg, magasári og blóðþynningu. Öll svona lyf geta dregið úr starfsemi nýrnanna sem læknir þinn getur þá fylgst með og látið taka blóðprufur reglulega.

Þótt lyf sem þekkt eru undir heitinu COX-2 hemlar(Arcoxia®) valdi ekki blóðþynningu og fari betur með magann en mörg önnur lyf, ber að nota þau með varúð vegna aukaverkana á hjarta-og æðakerfi.

Geti steralaust bólgueyðandi lyf ekki unnið fyllilega bug á verkjum sem þú finnur fyrir, er næsta skref að bæta við ópíumlyfi. Ópíumlyf eru kvalastillandi og meðal þeirra er að finna bæði morfín og kódín. (þegar þau eru misnotuð til að framkalla vímu eru þau einfaldlega nefnd eiturlyf.)

Vegna þess hvernig lyfjagjafir virka geta skammtar af steralausu bólgueyðandi lyfi ásamt ópíumlyfi virkað betur og með færri aukaverkunum en ópíumlyf eitt og sér. Til eru margar góðar samsetningar af þessum tvenns konar lyfjum, t.d. Ibucod.

Hvers vegna ætti ekki einfaldlega að auka skammtinn af sterafría bólgueyðandi lyfinu í stað þess að bæta við það ópíumlyfi? Ástæðan er sú að á bólgueyðandi lyfjum eru efri mörk. Of mikið getur valdið bilun í nýrum og lifur eða jafnvel einhverju enn verra. Ópíumlyf má gefa í stækkandi skömmtum án sambærilegrar áhættu. Aukaverkanir af ópíumlyfjum geta verið vandamál en sjá má við flestum þeirra.

ÞB