Verkjakast

Gripið er til viðbótarlyfjagjafar með ópíumlyfi til að stilla verkjakast. Þá er ópíumlyf gefið til viðbótar þeim lyfjum sem gefin eru að jafnaði við þrálátum verk.

Lyf sem gripið er til í verkjakasti þarf að komast hratt inn í blóðrás til að binda endi á mikinn, snöggan verk. Lyfið þarf einnig að fara fljótt úr líkamanum til þess að ekki komi til ónauðsynlegra aukaverkana. Af þeirri ástæðu skiptir miklu máli á hvaða formi þú færð þess háttar verkjastillandi lyf. Venjulega líða um það bil 15 til 20 mínútur áður en töflur sem teknar eru um munn fara að verka. Þannig verkjalyf er áfram í blóðinu í 3 til 4 klukkutíma. Lyf sem gefin eru í endaþarm (stílar) hafa skjótari verkun, en aðstæður kunna að vera þannig að þau séu ekki heppileg.

Rannsóknir hafa sýnt að lyf sem tekin eru í gegnum slímhúð í munni (til dæmis nuddað í innanverða kinn eða sett undir tungurót) gefast vel til að slá á skyndilegt verkjakast.

Eina verkjalyfið sem er gefið svona heitir löngu nafni en er skammstafað OTFC og vöruheiti þess er Actiq®). Actiq® er eina viðurkennda lyfið sem gefið er við skyndilegu verkjakasti af völdum krabbameins.

Actiq® er einungis gefið sé þegar gefið ópíumlyf við þrálátum verk. Vegna þess að lyfið lítur út eins og íspinni er áríðandi að muna að það getur orðið litlum börnum freisting – og reynst þeim banvænt. Því verður að geyma lyfið í læstum skáp, utan seilingar barna.

(Áminning: ÖLL ópíumlyf ber að geyma í læstum skáp utan seilingar barna.)

Reynist lyf sem þér er ætlað að nota við skyndilegum verk of seinvirkt eða dregur ekki nægilega úr verkjum, þarftu að ræða við lækni þinn um hvað er til ráða. Hugsanlega þarf að breyta skammtinum eða þér kæmi betur að nota annað kvalastillandi lyf. Hugsanlegt er að eitthvert annað lyf henti betur, til dæmis þunglyndislyf eða staðdeyfilyf og fer það eftir því hvar þú finnur fyrir þessum sára verk. Sá skammtur sem þér er ætlaður af skjótvirku ópíumlyfi þarf að vera í réttu hlutfalli við langverkandi ópíumlyfið sem á að verka allan sólarhringinn.

Ef til vill finnur þú til verkja þegar áhrif venjulegs skammts af lyfi sem á að stilla þrálátan verk fara dvínandi. Það er eðlilegt. Þetta er ekki talið verkjakast í venjulegri merkingu orðsins. Segðu lækni þínum frá því hvernig þetta lýsir sér. Hugsanlega þarf að stilla betur sólarhringslyfjaskammtinn.

Ræddu um það við lækni þinn hvenær best sé að taka lyf vegna verkjakasts. Leggðu fyrir hann beinar spurningar sem tengjast reynslu þinni af verkjunum. Mundu: Það er ekki til neitt sem heitir heimskulegar spurningar!

Almenna reglan er sú að um leið og þú finnur fyrir verk tekurðu lyfið sem er ætlað að stilla verkjakastið. Vitir þú til dæmis að einhver athöfn framkallar yfirleitt skyndilegan verk (til dæmis þegar þú klæðir þig), spyrðu þá lækninn hvenær heppilegt sé að taka inn lyfið til að komast hjá því að finna til.

Best er að fá skrifað upp á tvenns konar lyf: annars vegar langtímalyf við þrálátum verk og hins vegar lyf við verkjakasti. Þetta geta verið tvö ólík lyf með mismunandi innihaldi.

Bráðaverkur

Sé líklegt að verkurinn sem þú finnur lagist tiltölulega fljótt (til dæmis verkur sem þú finnur fyrir strax á eftir sýnatöku úr brjósti eða beini) kallast hann bráðaverkur.

Til að vinna gegn honum mun læknir þinn velja skammverkandi lyf sem ekki truflar áhrif annarra lyfja sem þú hugsanlega tekur.

ÞB