Að fá meðferð við verkjum
Farðu með verkjadagbók þína eða frásögn til læknisins. Væntanlega fer það eftir því hvar þú ert stödd í meðferðinni hvort það er skurðlæknir þinn eða krabbameinslæknir sem þú þarft að tala við.
Hlusti viðkomandi ekki á þig eða þú ert ósátt við viðbrögðin, skaltu leita lengra. Kannski getur yfirlæknir deildarinnar komið til hjálpar, heimilislæknir eða læknir á næstu heilsugæslustöð.
Finnist þér læknirinn sem þú leitar til ekki taka kvartanir þínar nógu alvarlega eða sé einfaldlega ráðalaus, hafðu þá uppi á lækni sem getur hjálpað þér, t.d. sérfræðingi í verkjameðferð. Þú gætir þurft að fá tilvísun.
Talaðu um verki þína við fullorðna fjölskyldumeðlimi og aðra sem láta sér annt um þig. Ekki þegja í því skyni að vernda aðra. Þínir nánustu verða bara áhyggjufullir ef þú segir þeim ekki hvernig þér raunverulega líður.
Samskipti læknis og sjúklings
Að segja frá eða lýsa verkjum er ekki það sama og að kvarta! Ekki hika við að tala um verki af hræðslu við að trufla lækninn eða koma fyrir sem væluskjóða.
Það getur hent þig að gleyma að ræða verkina við lækninn af því að þú ert með hugann við meðferð og bata á meðan þið ræðið saman. Það á einkum við sértu þú verkjalaus meðan þú ert inni hjá lækninum. Mættu í viðtöl með lista yfir það sem þú þarft og vilt ræða og hafði verkina með á þeim lista.
Þú og læknir þinn þurfið að skilja hvort annað eða hvor aðra til fulls. Gakktu úr skugga um að þú hafir gert þig skiljanlega með orðum þínum og að þú hafir skilið rétt það sem við þig var sagt. Hugsast getur að þið notið sömu orð en leggið ekki í þau sama skilning.
Gefðu til kynna hvaða aukaverkanir af verkjalyfjum þú ert tilbúin að sætta þig við og hvaða aukaverkanir þér finnst óásættanlegar. Til dæmis er það svo að öll morfín- og kódínlyf valda drunga (syfju og orkuleysi). Einn sjúklingur gæti til dæmis sagt: “Ég er tilbúin að sætta mig við að vera syfjuð ef ég losna við verkina,” en annr myndi umfram allt vilja vera skýr í kollinum og legði minni áherslu á að losna við verki. Þú verður kannski syfjuð fyrstu dagana sem þú tekur inn nýtt kvalastillandi lyf (af morfín- eða kódíngerð) eða eftir að skammtar hafa verið stækkaðir. Flestir venjast þessu þó og fer að líða vel eftir tvo til þrjá sólarhringa, en drunginn getur varað í fjóra til fimm sólarhringa.
Standi til að halda verkjameðferð áfram, er nauðsynlegt að hafa stöðugt samband. Nokkrar tilraunir getur þurft að gera áður en rétt verkjalyf finnst og fá það til að gagnast þér sem best. Eðli verkja getur líka breyst og getur þá þurft að breyta meðferðinni. Láttu lækni þinn eða hjúkrunarfræðing vita ef:
-
Verkjalyfið gerir ekki gagn,
-
þú færð aukaverkanir af því svo sem ógleði, harðlífi, óeðlilegan svita. Farir þú að finna fyrir andþrengslum, færð útbrot eða kláða, gæti það bent til þess að þú hafir ofnæmi fyrir lyfinu. Þá verður þú að hætta að taka lyfið þegar í stað og hafa samband við lækninn sem ávísaði lyfinu.
Mundu:
-
Til er ráð við öllum verkjum.
-
Það er ekkert hetjulegt við að þjást. Finnir þú til, láttu þá vita af því!
-
Haltu verkjadagbók.
-
Talaðu bæði við lækni þinn OG hjúkrunarfræðinginn.
-
Takist ekki að meðhöndla verki þína með viðunandi árangri, skaltu biðja um tilvísun á sérfræðing í verkjameðferð.
-
Sértu á ópíumlyfjum að staðaldri, þarftu að öllum líkindum að taka reglulega inn hægðalyf til að komast hjá hægðateppu. Drekktu mikinn vökva og borðaðu trefjaríka fæðu, t.d. gróft brauð og grænmeti.
-
Takir þú lyfin eins og mælt er fyrir, má halda verkjum í skefjum með ópíumlyfjum án tiltakanlegrar hættu á vanabindingu eða lyfjaþoli (við lyfjaþol dregur úr virkni lyfja). Ágerist verkirnir, má auka lyfjaskammt án fyrirfram gefinna efri marka.
ÞB