Óhefðbundnar leiðir í verkjameðferð

Til eru ýmsar óhefðbundnar leiðir til að fást við verki. Þær eru kallaðar óhefðbundnar vegna þess að áhrif þeirra hafa ýmist ekki verið könnuð vísindalega eða fengist staðfest af læknavísindunum. 

Sífellt verður algengara að stuðst sé við sumar þeirra óhefðbundnu leiða sem kunnar eru og þær notaðar með öðrum meðferðum. Þá er talað um heildræna meðferð. Hérlendis er þetta ekki gert skipulega þótt sumir læknar bendi á leiðir sem þessar og hvetji sjúklinga sína til að leita þeirra. Sumar þessar aðferðir geturðu lært að nota upp á eigin spýtur (til dæmis sjónsköpun eða jóga), en við annað þarftu meðferð hjá þeim sem hefur lært viðkomandi tækni, t.d. nálastungur eða dáleiðslu.

*TR tekur ekki þátt í kostnaði sem fylgir því að fara til einhvers sem veitir óhefðbundna meðferð. Hins vegar má reyna að sæka um styrki í sjúkrasjóði sumra stéttarfélaga.

Vertu ófeimin við að nefna áhuga þinn á þessum meðferðarleiðum við lækni þinn. Ekki er útilokað að hann eða hún geti gefið þér upplýsingar um aðila sem þeir vita að hefur reynst vel.

Heildræn meðferð

Í heildrænni meðferð sameina krafta sína þeir sem beita hefðbundnum meðferðum og þeir sem hafa fengið þjálfun í óhefðbundnum meðferðum. Þá fær fólk að njóta þess besta úr báðum áttum.

Forvitnilegt er að vita að á svokallaðri verkjameðferðarstofnun sem tengist Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna er í milli 50 og 80% tilfella ekki notuð lyf. Á meðferðarstofnuninni eru notaðar nálastungur, tónlistarmeðferð, nudd, slökun, dáleiðsla, reiki og sjónsköpun. Einnig hafa verið könnuð áhrif þess á sjúklinga að hafa gæludýr hjá sér. Fólk þjálfað í þessum mismunandi meðferðaleiðum vinnur náið með hjúkrunarfólki, læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Hafir þú áhuga á að nýta eitthvað af þessu eða ert nú þegar í einhverri óhefðbundinni meðferð, er gott að minnast á það við lækninn og heyra hvort hann getur komið með góðar ábendingar.

Takir þú inn jurtalyf og ert samtímis í hefðbundinni lyfjameðferð við brjóstakrabbameini, skaltu hafa með þér lista yfir það sem þú ert að taka til krabbameinslæknisins til að ganga úr skugga um að það sé til gagns en ekki skaða fyrir meðferðina.

Á síðunum hér á eftir má finna ábendingar um ýmsar óhefðbundnar leiðir sem þú hefur hugsanlega áhuga á að reyna:

  • Vöðva- og hreyfimeðferð (kínesiológía)

  • Ayurvedískar lækningar – margra alda gömul læknisfræði upprunnin í Indlandi sem byggist m.a. á púlsgreiningu og mataræði.

  • *Höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð (cranio-sacral)

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB