Nudd, jóga og hreyfing
Nudd
Nudd getur stuðlað að því að minnka verki - þar á meðal verki vegna brjóstnáms - og auka hreyfigetu. Segðu nuddaranum frá verknum eða verkjunum sem þú finnur fyrir og krabbameinsmeðferðinni sem þú ert í núna eða hefur þegar lokið.
Nuddfræðingar og hnykkjarar (kírópraktorar) geta verið góðir í að kenna konum að nudda sig sjálfar og gefa sjálfum sér m.a. sogæðanudd.
Áður en nuddfræðingur eða kírópraktor hefst handa reynir hann að komast að því hvar upptök verkjarins eru. Hann eða hún þarf að vera viss um að óhætt sé að þrýsta á ákveðna hluta líkamans.
Sértu með brjóstakrabbamein sem hefur dreift sér í bein (eitt eða fleiri) geta beinin verið brothættari en ella. Ef þannig er ástatt fyrir þér, skaltu ekki fara til hnykkjara. Mjúkt nudd gæti hins vegar hjálpað. *Sama gildir um höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. Meira um nudd.
Margir lærðir heilsunuddarar beita ýmsum öðrum aðferðum jafnframt nuddinu , svo sem
-
ilmolíum
-
blómadropum
-
kristöllum o.fl. o.fl.
Leitaðu meðmæla með þeim sem þú snýrð þér til og gakktu úr skugga um að viðkomandi hafi þá þekkingu og reynslu sem er nauðsynleg fyrir þig.
Jóga
Mörgum konum með brjóstakrabbamein finnst jóga gera sér gott. Jóga er æfingakerfi þar sem áhersla er lögð á stöður, teygjur, öndun og einbeitingu hugans.
Jóga teygir mjúklega á vöðvum og sinum líkamans, eykur vöðvaafl og hjálpar þér að styrkja hæfileika hugans til að beina athyglinni frá verkjum.
*Eigir þú þess ekki kost að sækja tíma eða kennslu í jóga eru til mynddiskar (DVD) með jógatímum undir leiðsögn kennara. Þú getur byrjað á að fá eintak að láni á næsta bókasafni. Í jóga er brýnt fyrir iðkandanum að virða mörk líkama síns og gera ekki meira en hann eða hún treystir sér til með góðu móti hverju sinni.
Hreyfing
Að liggja í rúminu lengi í senn án þess að hreyfa sig getur eitt og sér framkallað verki. Því er svo mikilvægt að reyna að halda áfram að hreyfa sig – þó ekki sé nema að fara fram úr og ganga nokkrum sinnum fram og aftur eftir ganginum eða um stofuna.
Alltaf er æskilegt að hafa sjúkraþjálfun, teygjur og æfingar inni í endurhæfingarferlinu. Sérstaklega á það við um verki vegna brjóstnáms. Það þýðir samt ekki að þú þurfir að byrja í stífum þolæfingum um leið og þú kemur heim. Mikilvægt er að þú finnir út hvers konar hreyfing og hve mikil gerir þér að jafnaði gott og bætir líðan þína.
Þegar þú hefur náð þér til fulls mun reglubundin hreyfing og æfingar hjálpa þér að halda líkamanum sterkum og verkjalausum.
ÞB