Þrálátir verkir, verkjaköst, bráðaverkir

Brjóstakrabbamein getur framkallað þrjár mismunandi tegundir verkja:

 1. þrálátan (stöðugan) verk

 2. verkjakast og

 3. bráðaverki

Hugsanlega hefurðu fundið fyrir öllum þessum tegundum verkja til skiptis eða samtímis.

Hvernig svo sem verkur lýsir sér, kann hann að stafa annaðhvort beinlínis af krabbameini eða öðru sem er ekki krabbamein.


Þrálátur verkur

 • Þetta er stöðugur verkur sem þú veist sífellt af. Hann getur verið lítill eða mikill eftir atvikum, allt frá því að vera óþægilegur verkur að nístandi sársauka.

 • Þrálátur verkur er venjulega meðhöndlaður með lyfjum sem virka allan sólarhringinn. Lyflausar eða óhefðbundnar aðferðir kunna að gera gagn.

 • Af því að þrálátur verkur gefur aldrei nein grið, getur hann skert lífsgæði þín til mikilla muna og gert það að verkum að þér finnst þú máttfarin og öðrum háð.

 • Þrálátur verkur getur svipt þig áhuga á flestu öðru en þínu eigin ástandi og getur átt þátt í að einangra þig frá vinum þínum, stöðum sem þér fannst gaman að koma á og öðru því sem fram til þessa hefur veitt þér ánægju og gleði.

 • Yfirleitt er hægt að meðhöndla þrálátan verk. Hafi lyfin sem þú færð eða meðferðin ekki tilskilin áhrif, skaltu tala við lækni þinn eða sérfræðing í verkjameðferð.

 • Til eru dæmi þess að fólk forðist þá krabbameinsmeðferð sem það þarf á að halda vegna þess að það finnur sífellt til. Vertu viss um að þú fáir þá meðferð við verkjum sem þú þarft á að halda til að geta fylgt krabbameinsmeðferðinni.

Verkjakast

 • Meirihluti fólks sem á við þráláta verki að stríða fær líka verkjaköst sem venjulega stafa frá því sem veldur þráláta verknum.

 • Í verkjakasti versnar þráláti verkurinn skyndilega um tíma (meðaltalið er u.þ.b. hálftími).

 • Þráláti verkurinn “brýst í gegnum” áhrif langtíma verkjalyfja og verður nístandi.

 • Verkjakast sem framkallast við hreyfingu líkamans er ein tegund verkjar. Stundum er einfaldlega talað um skyndilegan verk. Verkjakast af óljósum toga er óútskýrður verkur.

 • Verkjakast er hægt að meðhöndla, en lyfið þarf að vera hraðverkandi og hverfa fljótt úr líkamanum til að forðast að aukaverkanir ágerist.

 • Hægt er að draga úr verkjakasti með því að skipta um stellingu, koma í veg fyrir hósta og hægðatregðu og með því að hafa stjórn á þráláta verknum.

 • Þú getur tekið inn lyf eða tímasett viðbótarverkjameðferð þannig að þú ráðir betur við fyrirsjáanlegt verkjakast. Vitir þú að ákveðnar athafnir framkalla verkjakast geturðu komið því þannig fyrir að þú takir lyf eða fáir meðferð með nægilegum fyrirvara.

Bráðaverkur

 • Svona verkur kemur skyndilega, er ákafur en varir stutt. Yfirleitt hefur hann umsvifalaust áhrif á getu þína til að athafna þig.

 • Hann er ótengdur þrálátum verk.

 • Bráðaverkur tengist yfirleitt áverka eða einhverju inngripi (t.d. skurðaðgerð) og hverfur venjulega þegar líkaminn jafnar sig og grær.

 • Lyf eru gefin eftir þörfum, venjulega í stuttan tíma.

 • Bráðaverkur getur framkallað ótta – en svo er tekið á honum og hann er horfinn áður en varir.

ÞB