Sálræn áhrif verkja

Verkir er engu síður tilfinningalegir en líkamlegir. Jafnvel þótt þú fáir lyf við verkjum geta þeir þreytt þig og valdið því að þér finnst þú uppgefin andlega. Hugsanlega ertu kvíðin, sorgmædd eða við það að gefast upp.

Ef til vill ertu hrædd við að segja frá verkjunum. Þú hefur kannski áhyggjur af því að þú verðir álitin síkvartandi eða að það geti truflað lyfja- eða geislameðferðina ef þú færð lyf við verkjunum. Kannski trúir þú því að meðferð þurfi að vera sársaukafull til þess að skila árangri (alrangt!).

Í hvert sinn sem þú finnur fyrir verk á nýjum stað getur hugsast að þú haldir að nú sé krabbameinið að taka sig upp. Ekki er víst að það huggi þig neitt að vita að yfirleitt hafa nýir verkir ekkert með krabbamein að gera. Óttinn er mjög skiljanlegur, en láttu hann ekki ná valdi á þér. Taktu heldur völdin í þínar hendur með því að tala við lækni þinn um hvern þann verk sem veldur þér áhyggjum.

Til viðbótar því að lina sársauka með lyfjum eða annarri verkjameðferð geturðu dregið úr depurð með því að láta ekki laust það sem þér er kærast í lífinu né vanrækja þær athafnir sem skipta þig mestu. Aðrar leiðir sem þú getur farið til að takast á við depurð og kvíða er að:

  • Leita huggunar hjá fjölskyldu og vinum,

  • hringja í vinalínur,

  • taka þátt í stuðningshópi,

  • leita til sálfræðings eða annars ráðgjafa,

  • styrkja tengslin við trúfélag þitt og þann stað sem trúbræður og – systur koma saman til að iðka trú sína.

Talaðu við lækni þinn um hvort þunglyndislyf kunni að gagnast þér. Þau kunna að hjálpa þér yfir erfiðasta hjallann og geta auk þess bætt svefn og linað sumar tegundir verkja.

Eitt af því sem gerir verki svo erfiða viðfangs er hversu einstaklings-bundnir og huglægir þeir eru. Fólk upplifir verki á mjög mismunandi hátt. Stundum getur þér þótt sem heilbrigðisstarfsfólk taki ekki kvartanir þínar alvarlega. Þá þarft þú að koma því í skilning um hvernig þér líður þannig að fundnar séu leiðir til að styrkja þig og létta af þér andlegu og tilfinningalegu álagi vegna verkjanna sem þú finnur fyrir.

ÞB