Verkir af völdum krabbameins og aðrir verkir

Að kunna að greina í sundur verk sem stafar frá krabbameini og verk sem á sér aðra orsök getur hjálpað þér að skilja hvað hægt er að gera til að eyða honum eða lina hann þannig að þér líði sem best.

Sértu nýbyrjuð í meðferð, getur verið erfitt fyrir þig að átta þig á hvort verkurinn sem þú finnur fyrir stafar frá krabbameininu sjálfu eða einhverju öðru. Með hjálp fagfólks  þíns áttu auðveldara með að átta þig á uppruna verkjarins þegar meðferðin er komin svolítið lengra á veg.

Þegar þú veist að þú ert með krabbamein getur hvers kyns verkur framkallað ótta. Þú getur huggað þig við að nýir verkir og stingir stafa venjulega ekki af krabbameini. Þú skalt samt láta líta á þig ef verkurinn breytist eða versnar.

Hér eru nokkur mikilvæg atriði sem geta hjálpað þér til að skilja á milli verkja af völdum krabbameins og annarra verkja.

Krabbameinsverkir

Verkir af völdum brjóstakrabbameins geta stafað frá:

  • Æxli í brjósti: Stundum verkjar í hnútinn í brjóstinu. Þú kannt einnig að finna til miðlungs eða mikils sársauka í brjóstinu ef þú ert með bólgukrabbamein í brjósti vegna þess að krabbamein er í hörundinu sem liggur yfir æxlinu. Þú kannt einnig að finna til sársauka af því að æxlið hefur framkallað sár á hörundið yfir brjóstinu.

  • Meinvörpum: Útbreiðsla meinsemdar til annarra staða líkamans getur framkallað verki þar sem krabbamein hefur búið um sig. Dreifist krabbamein til dæmis í bein, getur það framkallað verki í baki, mjöðmum og öðrum beinum. Krabbamein sem hefur sáð sér í heila getur valdið höfuðverk. Erfiður bakverkur og máttleysi í fótleggjum geta stafað frá krabbameini sem hefur sáð sér í mænu eða æxli í hrygg eða heilahimnu sem þrýstir á mænuna. Nái krabbamein að dreifa sér til nýrnahettna geturðu fundið fyrir daufum bakverk. Dreifi það sér til lifrar getirðu fundið fyrir verk efst hægra megin í kviðnum.

  • Meðferð: Fyrir kemur að við meðferð ágerist verkir frá krabbameininu. Sem dæmi má nefna þegar andhormónameðferð hefst eða geislameðferð vegna meinvarpa í beinum. Þá geta blossað upp beinverkir. Það gerist vegna þess að í byrjun bregðast krabbameinsfrumur við meðferð með því að þrútna og það eykur þrýsting á taugar í beinum.

  • Brjóstverk: Yfirleitt er brjóstverkur alls ótengdur krabbameini, en nýr verkur sem ekki vill hverfa og er aðeins í öðru brjóstinu gefur tilefni til nánari skoðunar. Einkum á það við ef verkurinn ágerist án sýnilegrar ástæðu. Talaðu við lækni þinn og láttu hann vita. Brjóstaskoðun, röntgenmyndataka og hugsanlega sýnataka kunna að fylgja í kjölfarið. Ein af þekktum aukaverkunum hins nýja og áhrifaríka lyfs ­herseptíns (þótt dæmin séu fá) er skemmd á hjartavöðva. Sértu að fá þetta lyf, skaltu láta krabbameinslækni þinn vita samstundis verðir þú vör við nýjan og óvenjulegan verk í brjósti eða vinstri upphandlegg sem leiðir upp í háls.

Verkir af öðrum toga

Verkir geta stafað af öðru en krabbameini:

  • Skurðaðgerð

  • Geislameðferð

  • Krabbameinslyfjameðferð

  • Breytingum í brjósti óháðum krabbameini

  • Bata

ÞB