Meðferð með krabbameinslyfjum, bati og breytingar á brjósti

Meðan á meðferð með krabbameinslyfjum stendur færðu hugsanlega sár í munnholið. Þetta ástand kallast slímbólga og stafar venjulega af tímabundinni veiklun ónæmiskerfisins. Þig verkjar í ákveðna staði í munnholi og óþægindin aukast oft þegar þú neytir matar eða drykkjar. Ertist slímhúðin um of getur þú fengið sveppasýkingu.

Læknir þinn mælir hugsanlega með meðferð sem felst í að setja lyf beint í sár í munnholinu. Yfirleitt er um að ræða einhvers konar staðdeyfilyf – svipuð þeim sem tannlæknar nota til að deyfa þann hluta munnholsins sem þeir eru að vinna með. Ekki taka inn nein lyf sem hægt er að fá án lyfseðils nema tala fyrst við krabbameinslækninn. Þannig lyf geta hugsanlega truflað verkun annarra lyfja. Verðir þú vör merkja um sveppasýkingu (hvít eða rauð svæði), getur læknir skrifað upp á lyf sem vinna á sveppum.

Sum lyf sem notuð eru í lyfjameðferð við brjóstakrabbameini – svo sem taxol (efnafræðheiti: pacilitaxel) og taxotere (efnafræðiheiti: docetaxel) – geta valdið verkjum í vöðvum og liðum fyrst eftir meðferðina. Þau geta líka valdið taugaskemmdum í höndum og fótum eftir nokkrar umferðir krabbameinslyfjagfjafar, þannig að þú getur t.d. orðið dofin eða tilfinningalaus í tám og fingrum.

Bataverkir

Eftir að konur greinast með krabbamein bregðast sumar þeirra við með því að hætta að hreyfa sig meðan á meðferð og bata stendur. Afleiðingin verður sú að þær missa liðleika og vöðvastyrk, þyngjast og fá alls kyns verki og eymsli sem tengjast beinlínis hreyfingarleysinu.
Besta aðferðin til að takast á við verki af þessu tagi er að koma sér smám saman í gang, fara að hreyfa sig og gera léttar æfingar þar til fyrri styrk og liðleika er náð.
Önnur óþægindi sem stungið geta upp kollinum á meðan bata er náð kunna að stafa af öldrun, meiðslum eða öðrum sjúkdómum.

Verkir vegna breytinga á brjósti

Verkir í brjósti stafa venjulega af breytingum á brjósti sem hafa ekkert með krabbamein að gera. Svipuð óþægindi í báðum brjóstum eru oftast góðkynja (ekki krabbamein). Engu að síður er fyllsta ástæða til að láta krabbameinslækninn eða lækni á leitarstöð skoða brjóstin ef þú verður vör við MINNSTA VOTT af hnút í brjósti sem ekki hverfur eftir smátíma – hvort sem þú finnur til í honum eða ekki.


ÞB