Verkir eftir skurðaðgerð og geislun

Verkir eftir skurðaðgerð vekja ekki eins mikinn ótta og aðrir verkir. Þeir eru hins vegar sárir og geta valdið þér áhyggjum.

Eftir að hafa farið í brjóstnám, fleygskurð, eða eitlanám, finnurðu trúlega eitthvað til í bringu, brjósti eða holhönd vegna þess að:

  • Húðin dofnar eða verður tilfinningalaus eða, eins og stundum kemur fyrir, ofurnæm vegna þess að skorið var á taugar.

  • Þú finnur til sársauka og eymsla undir yfirborði húðarinnar af því að skurðlæknir þurfti að toga sitt og hvað vef og taugar á meðan hann skar.

  • Þrýstingur og bólga eru hluti af viðbrögðum líkamans við því áfalli að vera skorinn.

Verkir tengdir tilteknum skurðaðgerðum

  • Fleygskurður: Þegar svæðið þar sem skurðurinn var gerður “vaknar til lífsins” eftir áfallið af skurðaðgerð og geislameðferð, getur svæðið fengið aftur eitthvað af fyrra næmi eða tilfinningu. Þetta getur framkallað óþægindi í brjóstinu (oftast lítilsháttar). Það dregur úr verknum smám saman en það getur tekið langan tíma að losna alveg við hann.

  • Eitlanám: Margar konur segjast finna fyrir verk og bólgu í holhöndinni eftir að eitlar hafa verið fjarlægðir með skurðaðgerð. Verkurinn getur ágerst við að svæðið er geislað. Eitlar og sogæðar eiga þátt í að losa líkamann við úrgang og vökva úr vefjum hans. Þegar fleiri eða færri eitlar hafa verið fjarlægðir, getur safnast fyrir vökvi í handleggnum og hann bólgnað. Þegar vökvi safnast fyrir myndast aukinn þrýstingur á venjulegan vef og það getur framkallað verk eða óþægindi. Þessi bólga (bjúgur) kallast sogæðabólga og hverfur hugsanlega ekki til fulls í marga mánuði. Stundum getur sogæðabólga orðið viðvarandi. Sérstök tegund af sjúkraþjálfun og léttu nuddi ásamt teygjubindi geta stuðlað að því að minnka bólguna. Einnig getur það gerst að taugar í holhöndinni verða viðkvæmar og aumar af því að það þurfti að hreyfa þær til svo hægt væri að komast að eitlum. Þessar skemmdir á taugavef geta framkallað verk sem er ýmist eins og stingur, kaldur eða heitur eftir atvikum, fiðringur, náladofi eða sólbruni í holhöndinni sem leiðir út í bringu og öxl og niður upphandlegg innanverðan. Þess háttar verkur getur orðið viðvarandi vikum, mánuðum og jafnvel árum saman. Hægt er að draga úr honum með því að taka inn sérstök taugaverkjayf eins og þau sem gefin eru við krampa og/eða þunglyndi.

  • Brjóstnám: Strax eftir brjóstnám finna sumar konur fyrir dofa, sársauka og máttleysi í hönd, handlegg og öxl þeim megin sem brjóstið var fjarlægt.

Flest þessi einkenni stafa af því að það hefur þurft að toga í og skera á taugar og taugahnoð sem flytja boð til taugastöðva. Þegar þessar taugar skaddast við skurðaðgerð getur afleiðingin orðið alls konar óþægindi og verkir: kláði, brunatilfinning, eins og smákvikindi séu að skríða á þér, seiðingur, verkur og sárir stingir.

Þar við bætist að þegar þú finnur einhvers staðar til í líkamanum þá reynirðu ósjálfrátt að hlífa þeim líkamshluta, einmitt vegna þess að þú finnur til. Hreyfingarleysið getur aukið vandann. Handleggur og öxl reyna hugsanlega einnig að verja viðkvæma svæðið frekari áföllum og hnjaski. Það getur leitt til þess að með tímanum leggst þreyta í handlegg og öxl og þau verða stíf og sár af allri þessari “pössun”. Það getur síðan framkallað fleiri vandamál svo sem vöðvabólgu, sinabólgu eða gigt.

Sjúkraþjálfun getur gert þér kleift að fá vöðvana til að starfa á nýjan leik. Henni er rétt að fylgja eftir með reglubundinni hreyfingu/æfingum. Kannski þarftu að fá lyf til að slá á verki í vöðvum, sinum og taugum svo að þú getir gert þær æfingar sem nauðsynlegar eru til að ná upp hreyfigetu og draga þannig úr verkjum með tíð og tíma.

Verkir tengdir geislameðferð

Geislameðferð veldur mismiklum verkjum hjá fólki. Sumir finna aðeins endrum og sinnum fyrir snöggum sting. Aðrir kunna að finna fyrir töluverðum sársauka. Flestir finna frá litlum upp í meðalmikinn verk sem ágerist eftir því sem meðferðinni vindur fram.

Eftirtaldar ástæður geta valdið því að geislameðferð framkallar verki:

  • taugaerting

  • bólga umhverfis vefi í örum og skurðsvæði,

  • endrum og sinnum, sýking.

Verkir af völdum geislameðferðar hverfa venjulega með tímanum. Oft lagast þeir mjög mikið á fyrsta ári eftir meðferð og halda síðan hægt og bítandi áfram að lagast á næsta eina til tveimur árum.

ÞB