Að halda verkjadagbók

Til þess að fá nauðsynlega aðhlynningu og meðferð við verkjum þarftu að geta gefið lækni þínum og/eða hjúkrunarfólki nákvæma lýsingu á líðan þinni, hvernig hún er, hvar þú finnur til og hvenær.

Byrjaðu á að skrá daglega hjá þér hvernig þér líður. Skrifaðu niður eftirfarandi:

  • Hvar nákvæmlega þú finnur til

  • hve mikill verkurinn er (mælikvarði 0-10),

  • hve oft hann kemur,

  • hve lengi hann varir í hvert skipti,

  • hvaða athafnir eða tími dagsins tengjast verkjunum (hvaða athafnir verða til þess að þér líður betur, hvaða athafnir auka á verkina, hvenær verkirnir blossa upp og hvenær þeir minnka),

  • hvaða verkjalyf þú tekur (og hve oft) og

  • hvort lyfin slá á verkina (og þá hve lengi).

Mjög mikil hjálp er í því ef þú skrifar niður þessar upplýsingar. Reglulegar færslur í dagbók geta hjálpað þér og lækni þínum að meta verkina, finna út hvernig þeir haga sér og meta hversu vel lyf eða önnur meðferð virkar.

Kannanir sýna að svona dagbók verður til þess að læknar og hjúkrunarfólk leggur sig betur fram við að hjálpa sjúklingum til að ráða niðurlögum verkja. Hið sama gildir um aðstandendur og heimahjúkrunarfræðinga. Getir þú hjálpað þeim til að skilja hvernig þér líður, eiga þau auðveldara með að hjálpa þér.

Að lýsa verkjum

Því nákvæmar sem þú skráir í verkjadagbókina, þeim mun betra.

Hér koma spurningar sem geta hjálpað þér til að lýsa verkjum af nákvæmni:

  • Hvar finnurðu til? Byrjar verkurinn á ákveðnum stað og situr þar eða færist hann á milli staða?

  • Hvernig mundirðu lýsa honum? Er hann stingur, seiðingur, heitur, kaldur, nístandi, er sláttur í honum?

  • Var eitthvað sérstakt sem framkallaði verkinn? Varðstu til dæmis fyrir því að detta, hættirðu að taka steralyf, fórstu að athafna þig eftir langa legu í rúminu, reyndirðu á ákveðinn líkamshluta til að minnka álag á öðrum (dæmi um slíkt gæti verið verkur sem þú hefur fengið í axlirnar af því að nota göngugrind).

  • Hversu slæmur er verkurinn á mælikvarðanum 0-10? Notaðu núllið fyrir engan verk en tíu fyrir versta sársauka sem þú getur með nokkru móti gert þér í hugarlund.

  • Hversu lengi varir verkurinn? Hvenær byrjaði hann? Er hann stöðugur eða kemur hann og fer, mismunandi mikill eða jafnmikill allan daginn eða er hann verstur á ákveðnum tíma sólarhringsins?

  • Hvað verður til þess að hann versnar – ákveðin stelling eða hreyfing, ákveðin fæða, lega á hörðu undirlagi, kuldi, rigning, tilfinningalegt uppnám?

  • Hvað verður til þess að hann lagast – ákveðin stelling, ákveðinn tími sólarhringsins, lyf eða þegar einhver ákveðin manneskja kemur eða fer?

  • Fylgja einhver önnur einkenni verknum eins og sviti, kvíði, hjartsláttur, depurð eða svefnleysi?

 ÞB