Hvers vegna að fylgjast með?

Þegar upphaflegri meðferð er lokið er eðlilegt að vilja einbeita sér að því að ná sem allra bestri heilsu. Það er stórkostlegur léttir að finna að lífið stjórnast ekki lengur af krabbameini og geta nú beint athyglinni að sjálfri sér, fjölskyldu, vinum, vinnu og áhugamálum!

Hafir þú þurft að takast á við krabbamein, er samt óumflýjanlegt að sú reynsla fylgi þér og verði kafli í ævisögu þinni; eitthvað í fortíðinni sem þú hugsar til og þarft að taka tillit til framvegis.  

Mikilvægt er að sinna ýmsum grundvallaratriðum í því skyni að forðast áhyggjur og vita að þú gerir allt sem í þínu valdi stendur til að fylgjast með og varðveita heilsuna til langframa. 

  • Haltu áfram að fara til annað hvort krabbameinslæknis þínis eða heimilislæknis að minnsta kosti einu sinni eða tvisvar á ári.

  • Skráðu hjá þér allar breytingar á heilsunni sem þú verður vör við.

  • Skrifaðu hjá þér spurningar og annað sem kann að stinga upp kollinum í þessu sambandi og leitaðu svara annað hvort með því að hringja til læknisins eða við næstu heimsókn.

  • Fylgstu með framförum í meðferð við brjóstakrabbameini. Ein leið er að skrá sig inn á breastcancer.org email updates

Að fylgjast með er mikilvægt af nokkrum góðum og gildum ástæðum:

  • Það hjálpar þér að finna að þú sinnir heilsu þinni eins og vera ber og veitir þér öryggistilfinningu. 

  • Með því að fylgjast með aflarðu þér bestu hugsanlegrar fræðsluu um hvernig draga má úr líkum á að brjóstakrabbamein taki sig upp eða nýtt krabbamein nái að þróast.

  • Þegar þú veist hvað er í boði, geturðu íhugað nýja kosti.

  • Framfarir í rannsóknum skipta ef til vill litlu fyrir sjálfa þig, en að vita af þeim gæti hjálpað einhverjum sem þú þekkir og er í meðferð. 

Margar nútímakonur eiga fullt í fangi með að sinna vinnu utan heimilis, fjölskyldu og félagslífi, þannig að lítill eða enginn tími gefst til að fylgjast með öllu sem er að gerast í sambandi við brjóstakrabbamein. Upplýsingaflæðið er yfirþyrmandi. Hvernig er þá best að finna það sem getur skipt máli fyrir ÞIG SJÁLFA? 

Aðalatriðið er að gefa gaum að meiri háttar framförum á sviði krabbameinslækninga, spyrja spurninga og halda sambandi við lækni sinn eða lækna. 

ÞB