Bólgukrabbamein

Bólgukrabbamein í brjóstum er tiltölulega sjaldgæft en mjög alvarleg og ágeng tegund brjóstakrabbameins. Samkvæmt Krabbameinsskrá Bandaríkjanna (National Cancer Institute - NCI) teljast 1% til 5% brjóstakrabbameina í Bandaríkjunum til þessarar tegundar.

Einkenni bólgukrabbameins í brjósti geta meðal annars verið:

  • Roði í brjóstinu. Mest áberandi einkenni bólgukrabbameins í brjóstum er roði sem nær yfir hluta brjóstsins eða það allt. Stundum hverfur roðinn og birtist á víxl.

  • Bólga í brjóstinu. Hluti brjóstsins eða allt brjóstið kann að vera bólgið, þrútið og hart viðkomu.

  • Hiti. Brjóstið er heitt viðkomu.

  • Appelsínuhúðaráferð. Hjá sumum bólgnar brjóstið og fer að líkjast hýðinu á stórgerðri appelsínu ("peau d'orange").

  • Aðrar breytingar á húð. Húðin yfir brjóstinu á það til að verða bleik á lit eða eins og marin. Einnig geta komið fram rákir, randir eða annars konar upphlaup á brjóstinu.

  • Bólga í eitlum. Eitlar í holhönd (handarkrika) eða fyrir ofan viðbein eru bólgnir.

  • Geirvartan er útflött eða snýr inn á við. Geirvartan getur orðið flöt eða snúist inn á við.

Um það bil helmingur kvenna sem fá bólgukrabbamein í brjóst eru með hnút eða þykkildi í brjóstinu, en erfitt getur reynst að þreifa hann vegna þess að brjóstið er oft stærra og harðara en venjulega.

Í stigunarkerfi brjóstakrabbameins telst bólgukrabbamein í brjósti til krabbameins á stigi IIIB  vegna þess að það kann að finnast í hörundi, brjóstkassa eða í eitlum meðfram bringubeini innanverðu (miðmæti). Hafi krabbameinið sáð sér í önnur líffæri eða líkamshluta svo sem bein, lungu, lirfur eða hálseitla, flokkast það sem krabbamein á IV. stigi.

Erfitt er að greina bólgukrabbamein í brjóstum

Stundum er bólgukrabbamein í brjóstum greint ranglega sem sýking. Vegna þess hve sjúkdómurinn er sjaldgæfur hafa margir læknar aldrei séð hann. Hann hefur heldur ekki verið rannsakaður jafn ítarlega og margar aðrar tegundir brjóstakrabbameins. Sýking er algengari orsök bólgu og roða í brjósti en krabbamein — og því kemur sú greining fyrst upp í hugann. Hins vegar er líklegt að sýking stafi af einhverri ákveðinni orsök eins og til dæmis brjóstagjöf. Sýkingar láta undan viðeigandi meðferð með sýklalyfjum, en þau virka ekki á bólgukrabbamein í brjóstum.

Þegar bólgukrabbamein greinist í brjósti gerist það yfirleitt við læknisskoðun til að byrja með, þó að brjóstamyndun, segulómun eða ómskoðun komi stundum við sögu. Greininguna þarf að staðfesta með sýnatöku. Það gerist þó stundum að sýni úr bólgukrabbameini í brjósti reynist "neikvætt" jafnvel þótt roði og bólga ágerist. Því getur greiningin reynst vandasöm. 

Meðferð við bólgukrabbameini í brjóstum felur í sér tafarlausa meðferð með krabbameinslyfjum með eftirfarandi skurðaðgerð og geisum. And-estrógen-lyf (móthormónar) og trastuzumab (Herceptin®) geta einnig komið til greina. Aðrar tegundir marksækinna lyfja koma einnig til greina, svo sem Avastin® (efnafræðiheiti: bevacizumab). Tegund og röð meðferða fer eftir hverju einstöku tilfelli og aðstæðum.

 ÞB