Að gera hlé á meðferð

Sértu með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins sem þróast hægt og þú ert sátt við líf þitt og líðan, er hugsanlegt að þú ákveðir að hætta meðferð, njóta bara lífsins og endurskoða síðan ákvörðun þína með reglulegu millibili. Evelyn sem hafði fengið fjarmeinvörp brjóstakrabbameins í beinin sagði: "Lífsgæðin skiptu mig meira máli en nokkuð annað svo læknirinn minn stakk upp á að ég tæki mér frí frá lyfjunum. Ég henti þeim öllum út og kroppurinn minn varð alveg ósegjanlega feginn að losna við draslið!" Evelyn lifðu þægilegu lífi í tæp tvö ár án þess að taka nokkur lyf.

Á meðan fór krabbameinið sínu fram og þegar hún tók að finna fyrir alvarlegum verkjum leitaði hún aftur til læknisins síns og ákvað að reyna að fara aftur í krabbameinslyfjameðferð. Nú er sjúkdómnum og verkjunum haldið í skefjum á ný, mörgum árum eftir að meinvörpin greindust fyrst.

Hafir þú verið lyfjalaus um tíma, er hugsanlegt að þú hafir þörf fyrir að taka inn sífellt meiri eða sterkari verkjalyf. Hins vegar kunna aukaverkanir verkjalyfja að hafa áhrif á lífsgæði þín. Þegar þannig háttar, er hugsanlega gagnlegra að geisla svæði þar sem er þrálátur og sívaxandi verkur. Með geislum má hugsanlega minnka til muna töku verkjalyfja og losna við bagalegar aukaverkanir þeirra. Ræddu möguleikana við lækninn þinn.

ÞB