Hvar brjóstakrabbamein kann að taka sig upp og hvernig má finna það

Þegar brjóstakrabbamein tekur sig upp, kann það að gerast á sama stað og áður. Á læknamáli er það kallað „staðbundin endurkoma" eða „endurmein" vegna þess að ekki er um nýtt krabbamein að ræða. Meinið getur hins vegar tekið sig upp á stað sem tengist ekki beint þeim stað sem krabbameinið fannst á fyrst. Það kallast „meinvarp krabbameins" eða „fjarmeinvarp" og finnist krabbamein á fleiri en einum stað er talað um „meinvörp". Kynntu þér (grein á ensku) hvernig meðferð er unnt að veita við meinvörpum (langt gengnu brjóstakrabbameini). Þegar brjóstakrabbamein tekur sig upp á ný er það yfirleitt á ákveðnum stöðum líkamans:

  • Í brjóstinu eða á svæðinu þar sem brjóstið var áður,

  • í bringunni,

  • í eitlum,

  • í beinum,

  • í lungum eða umhverfi þeirra,

  • í lifur

  • í heila.

Krabbamein í öðrum hluta líkamans sáir sér yfirleitt ekki í brjóst. Sértu með krabbamein í eitlum, lungum, lifur, beinum eða heila er það að öllum líkindum brjóstakrabbameinið sem hefur dreift sér eða tekið sig upp aftur fremur en nýtt og öðruvísi krabbamein. Með öðrum orðum: Hafir þú greinst með brjóstakrabbamein og hefur nú fengið krabbamein í beinin, lifrina eða annars staðar, er næstum víst að ekki er um beinkrabbamein eða lifrarkrabbamein að ræða heldur brjóstakrabbamein sem hefur sáð sér til beina eða lifrar. Þetta er mikilsvert atriði því að auðveldara að meðhöndla brjóstakrabbamein — jafnvel þótt það hafi dreift sér — heldur en krabbamein sem á upptök sín í beinum eða lifur.

Brjóstakrabbamein sem tekur sig upp annars staðar í líkamanum er ífarandi  krabbamein. Hinsvegar er krabbamein sem tekur sig aftur upp í brjóstinu eftir skurðaðgerð og/eða geislameðferð ýmist ífarandi eða ekki-ífarandi (forstigsbreytingar).

Greinist krabbamein seinna í hinu brjóstinu er það oftast ekki gamla meinið sem tekur sig upp heldur nýtt krabbamein. Það á við um flest krabbamein sem greinast í brjóstinu sem áður var laust við krabbamein. 

Þegar brjóstakrabbamein tekur sig upp er það skilgreint á þrjá mismunandi vegu eftir staðsetningu. Það getur verið:

  • Á sama stað: í brjóstinu þar sem það átti upptök sín eða í húð eða undirliggjandi vef þar sem brjóstið var áður. 

  • Á sama svæði: í eitlum næst brjóstinu. 

  • Fjarmeinvarp:  á öðrum stað í líkamanum, eins og lungum, beinum lifur eða heila, svo og í eitlum sem ekki liggja að brjóstinu.

Á næstu síðum er að finna frekari upplýsingar um brjóstakrabbamein sem tekur sig upp á þessa þrjá vegu. Sértu að lesa þér til um þetta efni þér til fróðleiks og án þess að brjóstakrabbamein hafi tekið sig upp hjá þér, kann hugurinn að gera þér grikk. Þér kann að finnast þú merkja grunsamleg einkenni sem gætu bent til að krabbameinið sé að taka sig upp. Það eru eðlileg viðbrögð. Hverfi einkennin ekki eftir einn eða tvo daga, pantaðu þá tíma hjá lækni þínum til að vera viss.

Hafir þú greinst með meinvörp krabbameins skaltu sleppa næstu síðum og fara beint á síðuna Að lifa með krabbameini sem hefur dreift sér.

ÞB