Fjarmeinvörp brjóstakrabbameins
Fjarmeinvörp þýðir að brjóstakrabbameinsfrumur hafa borist með blóðrás eða sogæðum til annarra hluta líkamans. Þeir staðir sem algengast er að brjóstakrabbamein sái sér til eru:
-
Eitlar á hálsi eða utan brjóstasvæðis.
-
Í húð utan brjóstsvæðis.
-
Bein.
-
Lungu.
-
Í fleyðru, bilið milli lungna og brjósthimnu (himnunnar sem klæðir brjóstholið að innan) þar sem safnast fyrir fleiðruvökvi.
-
Lifur.
-
Heili.
Hafir þú fengið brjóstakrabbamein skaltu láta lækni þinn líta á þig verðir þú vör við einkenni sem gætu bent til þess að krabbamein hafi sáð sér til einhverra af þessum líffærum eða líkamshlutum.
Einkenni meinvarpskrabbameins í beinum geta m.a. verið:
-
Vaxandi þreyta.
-
Stoðvefjaverkir í rifjum, baki eða mjaðmagrind sem standa lengur en tvær til þrjár vikur og virðast fara versnandi.
-
Takverkur.
-
Máttleysi í neðri hluta líkamans, breyting á starfsemi blöðru og þarma, erfiðleikar við samfarir, að missa þvag eða eiga erfitt með að sleppa þvagi og/eða hafa hægðir. Allt eða eitthvað af þessu getur bent til þess að taugar í hryggnum séu í klemmu eða verði fyrir þrýsting frá krabbameini.
Einkenni meinvarpskrabbameins í lungum eða fleyðru (lífhimnu lungna) geta m.a. verið:
-
Hósti sem ekki vill hverfa og versnar með tímanum (ýmist þurr hósti eða hósti sem tekur með sér slím og jafnvel blóð),
-
mæði,
-
brjótverkur án augljósrar ástæðu,
-
takverkur.
Einkenni meinvarpskrabbameins í lifur geta m.a. verið:
-
Lystarleysi og hugsanlega þyngdartap,
-
kviðverkur sem varir lengi og versnar með tímanum og engin augljós skýring á honum,
-
maginn er þaninn og úttútnaður,
-
blóðsýni sem sýna að lifrin starfar ekki eðlilega,
-
gula (gulur blær á húð og í augnhvítu sem stafar af gallitarefni; grænu efni sem verður til í lifrinni og á þátt í meltingunni með því að brjóta niður fitu),
Einkenni meinvarpskrabbameins í heila geta m.a. verið:
-
Höfuðverkur,
-
ógleði,
-
jafnvægisleysi, hrasað og dottið óeðlilega,
-
krampi.
-
breytingar á sjón (móða, tvísýni, sjóndepurð, blinda),
-
máttleysi í handleggjum eða fótum,
-
ruglástand,
-
persónuleikabreytingar.
Sértu með einhver þessara einkenna mun læknir þinn vilja láta gera ýmsar rannsóknir til að kanna hvort þau stafa af því að krabbameinið sé að taka sig upp eða dreifa sér. Rannsóknirnar fara eftir einkennunum, en þeirra á meðal kunna að vera:
-
blóðsýni og rannsóknir á því,
-
beinaskann af öllum líkamanum, með eða án röntgenmynda af ákveðnum beinum,
-
segulómskoðun (MRI) hryggjar eða heila,
-
tölvusneiðmynd af lungum, maga, kvið og/eða heila,
-
ómskoðun kviðar,
-
berkjuspeglun ef þú hóstar blóði eða merki finnast um að eitthvað komi í veg fyrir eðlilega öndun,
-
frumu-/vefjarsýni af svæðinu eða
-
tappað er vökva af svæðinu sem á í hlut. Þegar tappað er fleiðruvökva er fjarlægður vökvi sem er lokaður inni í rými milli lungna og brjóstkassa.
Fyrir kemur að læknirinn finnur hugsanleg merki um fjarmeinvörp þegar tekið er blóðsýni við reglulegt eftirlit jafnvel þótt konan finni ekki fyrir neinum einkennum. Venjulegt blóðsýni kann að gefa til kynna að eitthvað er að lifrinni. Með blóðsýni er einnig hægt að fylgjast með hvort í því er of mikið af kalki eða öðrum efnum sem gefa til kynna að krabbamein sé í beinum. Hið sama gæti einnig komið í ljós þegar farið er í eftirlit með beinaskanni.
Í ákveðnum tilfellum láta krabbameinslæknar mæla æxlisvísa (ákveðin prótín) í blóðsýni en sjaldnast þegar um brjóstakrabbamein er að ræða. Algengir æxlisvísar brjóstakrabbameins eru:
-
CEA (Carceno-Embryonic Antigen) krabbameins-fóstur mótefnisvaki),
-
CA (cancer antigen) 15-3, mótefnisvaki krabbameins.
Fjölgi æxlisvísum getur það bent til krabbameinsvaxtar. Stundum hækka þó gildi æxlisvísa án þess að krabbamein hafi dreift sér.
Fæstir sérfræðingar mæla með að æxlisvísar séu mældir reglulega nema um einhver einkenni sé að ræða. Ástæðan er sú að ekki hefur verið sýnt fram á að það bæti árangur.
Einkenni um fjarmeinvörp brjóstakrabbameins við fyrstu greiningu eru þau sem sagt er frá hér að ofan. „Fjarmeinvörp við fyrstu greiningu" þýðir að brjóstakrabbamein hefur þegar dreift sér út fyrir brjóst og aðliggjandi eitla þegar það uppgötvast, sem er sjaldgæft. Brjóstakrabbameinsfrumum hefur á einhvern hátt tekist að sá sér í önnur líffæri eða aðra líkamshluta án þess að nokkurra einkenna yrði vart fyrr en nú. Þótt brjóstakrabbamein á fyrstu stigum hafi ekki greinst, telst þetta vera krabbamein á síðari stigum.
ÞB