Endurkoma brjóstakrabbameins á sama stað
Tveir þriðju alls brjóstakrabbameins sem tekur sig upp í sama brjósti kemur fram á sama stað eða nálægt þeim stað þar sem upprunalega meinið var að finna. Einn þriðji er nýtt krabbamein. Brjóstakrabbamein í öðrum hluta sama brjósts eða í hinu brjóstinu er yfirleitt nýtt mein.
Um það bil einn þriðji brjóstakrabbameins sem tekur sig upp á sama stað finnst einungis með brjóstamyndun. Annar þriðjungurinn finnst með þreifingu eingöngu ( ýmist sjálfskoðun brjósta eða læknisskoðun) og einn þriðjungur finnst með báðum aðferðum saman, brjóstamyndun og skoðun. Hjá um það bil 80% kvenna sem meinið tekur sig upp í, finnast engin merki um krabbamein annars staðar í líkamanum.
Endurkoma brjóstakrabbameins á sama stað eftir fleygskurð og/eða geislameðferð
Hafir þú farið í fleygskurð, með eða án geislameðferðar, getur krabbameinið tekið sig upp á sama stað. Einkenni þess eru nýr hnútur sem stækkar og hverfur ekki eða ný þétting í brjóstinu.
Láttu þér samt ekki bregða þótt þú finnir hnút í brjóstinu þar sem upprunalega meinið var. Líklega er að það eitt af þrennu, algjörlega skaðlausu:
-
fituvefur sem hefur brotnað niður af völdum meðferðarinnar (fitudrep),
-
örvefur sem hefur undið sig um lítinn saum sem skurðlæknirinn tók þegar hann saumaði brjóstið saman,
-
örvefur sem fyllir gatið sem varð eftir þegar brjóstvefur var fjarlægður.
Roði og þroti í brjóstinu kann vissulega að stafa af því að krabbamein hefur tekið sig upp aftur en yfirleitt stafar þetta af einhverju öðru. Allt brjóstið getur virst rautt og þrútið í nokkra mánuði eftir skurðaðgerð og sérstaklega geislameðferð. Með tímanum minnkar roðinn yfirleitt, liturinn verður bleikur og síðan nokkurn veginn eins og hann á að sér að vera. Það getur þó tekið langan tíma.
Komi roði aftur í brjóstið mánuðum eða árum síðar, einkum ef brjóstið er heitt viðkomu og aumt, er líklegast um brjóstabólgu að ræða (mastitis). Leita þarf læknis umsvifalaust við brjóstabólgu og fá viðeigandi meðferð ef sýking er til staðar eða frekari rannsóknir ef grunur vaknar um bólguæxli.
Stundum geta útbrot óskyld krabbameini birst í húðinni (t.d. psoriasis og á það einkum við um konur sem hafa fengið psoriasis áður). Samt er mögulegt að roði og þroti í húðinni séu merki um að krabbamein sé að taka sig upp. Hörundið á brjóstinu þykknar ef til vill og fer að minna á appelsínubörk og verður rauðleitt eða bleikt.
Láttu lækni þinn skoða alla hugsanlega hnúta sem kunna að birtast nálægt svæðinu þar sem upprunalega meinið var. Til að átta sig á hvort um krabbamein er að ræða þarftu ef til vill að fara í brjóstamyndun. Læknirinn kann að álykta sem svo að hætta sé á endurkomu krabbameinsins ef brjóstamyndir sýna:
-
Einhverja stækkun eða óreglu á svæðinu þaðan sem upprunalega meinið var tekið,
-
nýjan hnút eða óreglu,
-
nýja klasa af litlum hvítum ögnum, s.k. smásjárkalkanir.
Grunsamlegri brjóstamynd kann að vera fylgt eftir með frekari rannsóknum. Þú gætir þurft að fara í ómskoðun, eða segulómun. Bendi myndir til að krabbameinið sé að taka sig upp aftur, verður tekið sýni úr hnútnum.
Endurkoma krabbameins á sama stað eftir brjóstnám
Hafir þú farið í brjóstnám og allt brjóstið verið fjarlægt, má þreifa eða sjá krabbameinið við eða í:
-
Húðinni þar sem brjóstið var áður,
-
mjúka vefnum á bringunni eða
-
endurgerðu brjósti.
Sjaldgæft er að nýtt brjóstakrabbamein — óskylt fyrsta meininu — komi upp eftir brjóstnám. Þegar um nýtt krabbamein er að ræða vex það út frá einni eða fleiri heilbrigðri brjóstafrumu sem varð eftir. Þær frumur voru undir húðinni sem hylur brjóstið eða ofan á vöðvanum bak við brjóstið. Meinafræðingur getur yfirleitt sagt til um hvort brjóstakrabbameinið er nýtt eða upptekning fyrra meins með því að bera saman í smásjá frumur teknar úr nýju sýni annars vegar og frumur úr upprunalegu sýni. Auðveldara getur reynst að meðhöndla nýtt krabbamein með góðum árangi heldur en krabbamein sem hefur tekið sig upp.
Mismunandi tegundir hnúta
Hafi kona farið í brjóstnám og látið búa til nýtt brjóst úr eigin líkamsvef, er ekki óalgengt að finna þykkildi eða meinlausa hnúta í brjóstinu. Í hnútunum er yfirleitt örvefur eða dauðar fitufrumur. Þetta eru ekki krabbameinsæxli. Ólíklegt er að svona breytingar eigi sér stað þegar brjóstið er endurgert með ígræddum púðum. Þú kannt að finna fyrir hnútum sem myndast af dauðum fitufrumum mánuði eða tveimur eftir að brjóstið var endurgert þegar þrotinn er farinn úr öllum vefjum. Hnútarnir kunna að haldast í sömu stærð eða minnka með tímanum. Séu margir hnútar saman kunna þeir að minnka og draga sig saman í einn stóran hnút. Taki einhver þeirra upp á því að stækka, skaltu láta lækni þinn vita. Líklega er þó engin ástæða til að hafa áhyggjur af þessu.
Verðir þú vör við nýja hnúta í húðinni eða undir henni kann hins vegar að vera ástæða til að hafa af því áhyggjur ef þeir eru:
-
Óreglulegir í laginu,
-
þéttir í sér eða harðir viðkomu,
-
að lit á bilinu ljósbleikir til rauðir,
-
ekki aumir viðkomu (þótt á því geti verið undantekningar).
Hafi brjóstið verið endurgert með þínum eigin líkamsvef (með TRAM-, GAP- (á ensku) eða DIEP-flipa) er hugsanlega hægt að sjá á brjóstamynd hvort um er að ræða dauðar fitufrumur eða aðrar breytingar sem hafa átt sér stað með tímanum.
Hafi verið græddir í þig brjóstapúðar er lítið gagn að brjóstamynd því að púðinn lokar fyrir útsýni. Þegar þannig er ástætt er mjög mikilvægt að láta lækni skoða brjóstið. Með ómskoðun og/eða segulómun má hugsanlega skera úr þessu.
Mismunandi tegundir útbrota
Stundum verður með tímanum vart útbrota og húðsjúkdóma sem ekki eru krabbamein. Það á við um psoriasis og verður einkum vart hjá konum sem hafa áður haft þann sjúkdóm.
Einstaka sinnum gerist það hins vegar að á húðinni birtast rauð, flauelskennd útbrot og þroti eða bólga. Þetta gæti verið ör eftir geislameðferð eða krabbamein sem tekur sig upp, jafnvel bólgukrabbamein. Ef útbrotin verða að opnum sárum sem ekki vilja gróa, er líklegt að um krabbamein sé að ræða.
Hafir þú farið í geislameðferð er nauðsynlegt að vita að henni fylgir oft þroti, roði og særindi og húðin kann að þykkna á svæðinu þar sem brjóstvefurinn var. Þessar breytingar á húðinni ágerast smátt og smátt meðan á meðferðinni stendur og ná hámarki einni til tveimur vikum eftir að henni lýkur. Hörundið lagast síðan yfirleitt með tímanum (á einum til tveimur mánuðum eftir að geislameðferðinni lýkur.)
Verðir þú hins vegar vör við svona einkenni í fyrsta sinn einhverjum vikum eftir að meðferðinni lauk, gæti verið um sýkingu að ræða og læknir þinn mun trúlega gefa þér sýklalyf til að losna við hana. Hafir þú ekki orðið vör við neinar breytingar á húðinni undanfarið, skaltu láta lækni þinn vita ef eitthvað slíkt lætur á sér kræla upp úr þurru.
ÞB