Vefjasýni sem staðfesta endurmein

Bendi einkenni þín eða niðurstöður rannsókna til þess að brjóstakrabbameinið hafi tekið sig upp eða sáð sér, kann læknir þinn að leggja til að vefjarsýni verði tekið úr grunsamlegum vef. Þú gætir þurft að láta taka sýni til að:

  • Vera viss um að ástæða vandans sé krabbamein en ekki eitthvað annað,

  • fá staðfesta greiningu á að brjóstakrabbameinið hafi tekið sig upp eða dreift sér,

  • kanna hver eru helstu einkenni krabbameinsins (þar á meðal stöðu hormónaviðtaka og HER2-viðtaka) þannig að læknarnir geti vitað hvernig best er að takast á við það.

Þegar brjóstakrabbamein tekur sig upp er það hugsanlega ekki nákvæmlega eins og það sem greindist fyrst. Til dæmis getur krabbamein sem var með hormónaviðtökum (ER+ eða PR+) tekið sig upp án hormónaviðtaka. Hugsanlega var ekki kannað í fyrsta skipti hvort HER2 viðtakar væru fyrir hendi. Nú er mikilvægt að fá úr því skorið því það kann að hafa áhrif á hvaða meðferð verður valin. Alveg eins og það var brýnt í fyrsta sinn að þú skildir í hverju fyrsta greiningin fólst, er mikilvægt að þú vitir líka núna við hvað er að fást. Það er fyrsta skrefið í þá átt að vita á hvers konar meðferð þú þarft að halda.

Vefjarsýni er hægt að taka með fínnál, grófnál eða skurðhníf með því að gera lítinn skurð. Fínnál er sú aðferð sem helst er notuð því hún hefur í för með sér minnst inngrip.

Finnist hjá þér grunsamlegur vefur sem erfitt er að komast að, er unnt að framkvæma myndgreiningu (með ómskoðun eða tölvusneiðmynd) við töku nálarsýnis.  Með aðstoð myndanna sem birtast á skjánum er unnt að beina sýnistökunálinni að réttum stað á svæði sem að öðrum kosti er erfitt að komast að (eins og lungum, lifur, eitlum eða beinum). Örlítill vökvi eða vefur er dreginn upp í nálina og sýnið sent í meinafræðilega skoðun.

Óíklegt er að þú farir í vefjasýnistöku ef: 

  • Röntgenmyndir sýna glögglega að um meinvörp er að ræða. Hið sama á við um niðurstöður rannsókna á öðrum hlutum líkamans. Ef stutt er síðan þú fórst síðast í meðferð við brjóstakrabbameini.

  • Erfitt er að komast að líkamshlutanum eða líffærinu án þess að valda skaða (eins og heila, mænu eða auga).

  • Sýnt þykir að sýnistakan mun hafa í för með sér aukaverkanir en niðurstöður hennar ekki breyta neinu um meðferðina.

  • Vitað er að brjóstakrabbameinið hefur dreift sér og því mjög líklegt að nýr grunsamlegur staður sé af völdum sama krabbameins.

Þú og læknir þinn ákveðið í sameiningu hvort taka eigi vefjarsýni eða ekki, hvar skuli taka það og hvaða aðferð skuli notuð við það. 

Meinafræðingurinn sem skoðar sýnið ber það saman við frumurnar í upprunalega brjóstakrabbameininu. á Rannsóknarstofu í meinafræði eru varðveittar sneiðar úr fyrsta meininu.) Reynist nýja krabbameinið vera fjarmeinvarp fyrsta meinsins, eru frumurnar yfirleitt líkar, ef ekki nákvæmlega eins.  

Stöku sinnum getur það þó gerst að krabbameinsfrumur í vefjasýni líkjast lítið frumum upprunalega meinsins. Það bendir til þess að þú sér með umbreytt brjostakrabbamein eða nýtt krabbamein sem er ólíkt brjóstakrabbameini, eins og ristil-, lungna- eða eggjastokkakrabbamein. Þá gerir meinafræðingurinn frekarinn rannsóknir til að komast að því hvers konar krabbamein á í hlut þannig að hægt sé að veita þér viðeigandi meðferð.

Sýni greiningin að um endurkomu brjóstakrabbameins er að ræða, vill læknirinn þinn mjög líklega fá að vita hvort krabbamein er að finna annars staðar í líkama þínum með því að gera frekari rannsóknir. Í því gæti falist bóðsýni, beinaskann, röntgenmyndir, tölvusneiðmyndir og segulómskoðun.  ÞB