Það sem þú getur gert núna

Ummæli læknis:

"Á meðan þú ert að glíma við brjóstakrabbamein finnst þér oft eins og þú hafir enga stjórn á neinu. Þér finnst mjög óþægilegt að vita ekki hvað þetta þýðir allt saman, hvað gerist næst og hvað þú getur gert til að hjálpa sjálfri þér. Besta leiðin til að ná aftur tökunum er að vita við hverju má búast, hver eða hverjir munu hjálpa þér og hvernig þú nærð sambandi við þá og hvað þú getur gert sjálf. Það er líka hjálp í því að hafa fullgerða meðferðaráætlun. Þegar þú ert búin að koma þessum hlutum saman mun þér líða miklu betur."

—Marisa Weiss, M.D.

*Þessi kafli lýsir aðstæðum sem eru að því leyti ólíkar því sem hér tíðkast, að hérlendis eru læknateymi oftast sett saman án aðkomu sjúklings. Krabbameinslæknir og aðrir sérfræðingar ráða að mestu hvaða rannsóknir eru gerðar og hutdeild sjúklings í kostnaði er ákveðin af Tryggingastofnun ríkisins.

Vefjasýni og aðrar rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að krabbameinið hefur tekið sig upp. Hvað gerir þú nú?

Taktu þér tíma til að afla upplýsinga og safna kröftum til að mæta þessari áskorun svo unnt sé að hefja lækningaferlið.

Til að búa til viðbragðsáætlun þarf náið samráð lækna. Í þeim hópi kunna að vera nokkrir sérfræðingar: 

  • Skurðlæknir sem tekur vefjasýni, sér um aðrar aðgerðir og fjarlægir einstök fjarmeinvörp.

  • Krabbameinslæknir sem sérhæfir sig í meðferð með krabbameinslyfjum, móthormónalyfjum (and-östrogenlyfjum), marksæknum meðferðum, verkjameðferðum og næringarráðgjöf.

  • Krabbameinlæknir sem sérhæfir sig í geislameðferð.  

  • Röntgenlæknir sem túlkar myndir úr ómskoðun og beinaskanni, tölvusneiðmyndum, segulómmyndum til að ákvarða útbreiðslu krabbameinsins og aðstoða við mat á því hvernig þú bregst við meðferð.

  • Meinafræðingur sem rannsakar öll sýni og gerir ákveðnar prófanir á krabbameinsvef til að afla sem mestra upplýsinga um meinið.

Þessir læknar þurfa allir að hafa gott samband sín í milli varðandi þær meðferðir sem þú færð.

Reiddu þig á þinn aðallækni og hjúkrunarfræðing þegar kemur að því að samhæfa krabbameinsmeðferðir og heilsugæslu þína að öðru leyti og fá þann stuðning sem þú þarft.

Þegar þú varst fyrst meðhöndluð við brjótakrabbameini kynntist þú mörgum læknum og sérfræðingum. Hafi samband þitt við þá lækna verið gott, viltu hugsanlega halda þig við þá. Hins vegar eru margir sem leita út fyrir þann hóp eða óska eftir áliti fleiri sérfræðinga þegar krabbamein tekur sig upp eða dreifir sér. Sumar konur kjósa að skipta alveg um lækna.

Taktu þér tíma. Svona mikilvægar ákvarðanir er ekki unnt að taka í flýti. Yfirleitt er í lagi að taka nokkrar vikur í að ná saman öllum staðreyndum málsins þannig að þú getir tekið þá ákvörðun sem best er fyrir þig.

Fáðu þær upplýsingar og þá athygli sem þú þarft á að halda. Það er erfitt að vera hagsýnn og skipulagður þegar maður er hræddur og hugsanlega náðirðu ekki að melta það sem þú heyrðir í fyrsta samtali. Hver ný manneskja lætur þér ef til vill í té nýjar upplýsingar til að hjálpa þér að fylla upp í myndina. Þú þarft að hugsa um hvert einstakt atriði og reyna að búa til úr bitunum heillega mynd. Þegar þú hefur fengið hugmynd um hvaða meðferð muni gagnast þér best í þessar lotu við brjóstakrabbameinið, tekurðu næsta skref.

Að takast á við óttann getur tekið upp jafn mikinn tíma og orku og það að skipuleggja næstu skref. Látta ekki bregðast að láta vini og fjölskyldu svo og lækna þína vita að nú þarft þú á meiri stuðningi að halda en endranær.

Á eftirfarandi síðum má lesa meira um meðferðir við krabbameini sem tekur sig upp á sama stað, á sama svæði og sem fjarmeinvörp. Slepptu því sem þú þarft ekki að lesa og farðu beint í það sem á við þig.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB