Hvenær er meðferð hætt?

Margir vilja láta minnast sín fyrir að gefast ekki upp og halda áfram að reyna allar hugsanlegar meðferðir. Þeim finnst sem það sanni ást þeirra og tryggð við fjölskylduna og lífið. Móðir með ung börn finnur eflaust sárast fyrir þessu. Jafnvel þegar sjúkdómurinn hefur breiðst út um allt, hún er föst við rúmið og fárveik bæði í sjón og reynd, getur það skipt hana öllu máli að vera á staðnum barnanna vegna og það gefur krabbameinsmeðferðinni tilgang. Að fá að lifa einn mánuð í viðbót getur verið þess virði að halda meðferð áfram svo framlega sem hugurinn er í jafnvægi, jafnvel þótt líkaminn sé það ekki.

Að reyna allar hugsanlegar meðferðir getur haft í för með sér síversnandi aukaverkanir og talsverðar þjáningar bæði fyrir sjúklinginn og fjölskyldu hans — þar á meðal óviðráðanlega fjárhagsbyrði. Þetta getur orðið erfiður tími.

Þegar hins vegar krabbameinið heldur áfram að vaxa þrátt fyrir allar tilraunir til að stöðva það, getur líkamlegt, tilfinningalegt og fjárhagslegt álag orðið þér og þínum um megn. 'Nú er nóg komið,' segir kannski líkaminn og fjölskyldan tekur undir það, ef til vill ekki með orðum, heldur skynjar þú tilfinningar þinna nánustu. Þegar þú gerir þér grein fyrir að það líður að leiðarlokum kann það að auka á reiði þína, þunglyndi og tilfinningarót. Þér kann að finnast þú vanmátta og ófær um að láta hinstu óskir þínar rætast.

Svo er hitt til í dæminu, bæði hjá þér og öðrum í sömu sporum, að fjölskyldan ætlast til of mikils. Þínir nánustu hvetja þig ef til vill til að fara í allar hugsanlegar meðferðir og virðast ákveðnir í að fá líf þitt framlengt. En sé dauðinn á næsta leiti, viltu kannski alveg eins láta hætta allri meðferð til að fá frið og svolitla hvíld undir lokin. Þér kann þá að finnast sem með því sýnir þú hugleysi og færð samviskubit vegna þess að þér finnst þú vera að svíkja ástvinina.

Engu að síður verður þú að virða þínar eigin þarfir. Það ert þú sem ákveður hvenær komið er nóg, hvenær mælirinn er fullur og tími kominn til að hætta meðferð sem ekki skilar þér bata á sjúkdómnum eða eykur lífsgæði þín— hversu mjög sem þig annars kann að langa til að þóknast þínum nánustu. Treystir þú þér til að segja þeim frá vilja þínum eða þarftu að hafa lækni þér til halds og traust, prest eða annan ráðgjafa? Þegar ekki er lengur raunhæft að gera ráð fyrir sjúkdómshléi, ætti það að vera í þínum höndum að ákveða hvers konar umönnun þú færð og hvernig þú vilt verja þeim tíma sem þú átt eftir. Þessu verður þú að fá að ráða.

Lyfjameðferð hætt

Að því mun koma að baráttunni við krabbameinið lýkur. Það gerist ef til vill ekki fyrr en þú deyrð, en þú gætir líka ákveðið að nóg sé komið af meðferðum og ákveðið að hætta. Hugsanlega verður það erfiðasta ákvörðunin sem þú tekur, en svo má einnig vera að þér reynist ákvörðunin auðveld vegna þess að þér finnst það vera hið eina rétta. Ástvinir þínir ráða þessu ekki, en það skiptir samt öllu að hafa stuðning þeirra við ákvörðun þína, hver sem hún er.

Kannski hefurðu áhyggjur af að læknar þínir sleppi af þér hendinni þegar þú hættir í meðferð við krabbameininu, en þeir munu samt áfram eiga virkan þátt í umönnun þinni. Þó má búast við að þú farir ekki eins oft og áður í reglulegt eftirlit og rannsóknir hjá krabbameinslækni þínum. Þú hittir kannski ekki lengur elskulega hjukrunarfræðinga, sjúkraþjálfara og ritara og átt hugsanlega eftir að sakna félagsskapar hinna sjúklinganna á göngudeild.

Líknandi meðferð

Þú nýtur áfram umönnunar. Ef til vill batnar hún jafnvel þegar þú hefur ákveðið að hætta í krabbameinsmeðferð. Þegar þarna er komið sögu tekur við annars konar ferli þar sem boðið er upp á líknandi meðferð.  

Líknandi meðferð er veitt heima, á sjúkrahúsi eða á líknardeild. Með líknandi meðferð er reynt að bæta líðan sjúkra og deyjandi með því að:

  • Veita verkjameðferð og aðra læknisfræðilega umönnun og hjúkrun.

  • Veita sjúklingi og fjölskyldu hans sálrænan og andlegan stuðning. 

  • Veita hjálp við dagleg verkefni eftir þörfum eins og að matast, fara í bað og klæðast. 

Í líknandi meðferð koma hjúkrunarfræðingar heim og heimilishjálp er veitt eftir þörfum. Krabbameinslæknirinn hefur eftir sem áður yfirumsjón með því sem lýtur að læknisfræðilegum atriðum. Hjúkrunarfræðingur, sérhæfður í líknandi meðferð, mun aðallega annast þig. Hjúkrunarfræðingurinn hefur samband við lækninn þinn þegar upp koma vandamál sem læknirinn þarf að taka afstöðu til, ávísa þarf á lyf og fleira.

Að kynnast líknarmeðferð hjálpar fjölskyldum að brúa bilið milli knýjandi þarfar fyrir svör sem veitt eru með aðhlynningu og þess að sætta sig við hið liðna og það sem í vændum er. Sú reynsla getur hjálpað sjúklingum og fjölskyldu hans að sættast — ekki aðeins við dauðann heldur einnig við lífið eins og því var lifað. 

ÞB