Að lifa með krabbameini sem hefur dreift sér

Fjarmeinvörp brjóstakrabbameins er ekki aðeins krabbamein sem hefur tekið sig upp heldur hefur það fundið sér leið út í blóðrásina og sáð sér til annarra líffæra eða líkamshluta svo sem í bein, lungu eða lifur. Dreift krabbamein kann að finnast við fyrstu greiningu eða eftir endurkomu krabbameins. Margar konur ná að lifa árum saman með dreift krabbamein sem tekst að hafa stjórn á. Fyrir þessar konur er það að lifa með þá vitneskju að þær hafa greinst með fjarmeinvörp krabbameins eins og að lifa með aðra ólæknandi sjúkdóma. Hvíld getur gefist frá sjúkdómnum um lengri eða skemmri tíma (sjúkdómshlé), hann getur gert vart við sig og horfið aftur eða tekið sig upp. Yfirleitt hefur þetta í för með sér að reyna þarf fleiri meðferðir, helst með hléum á milli þegar þér líður vel. Markmið meðferða er að hjálpa þér til að líða eins vel og mögulegt er og lifa sem lengst.

Enginn getur sagt þér hve lengi þú nærð að lifa með dreift krabbamein. Það er vegna þess að reynsla einnar er ólík reynslu annarra. Flestar konur með dreift brjóstakrabbamein lifa a.m.k. í þó nokkur ár, sumar lifa í áratug eða lengur. Aðrar lifa skemur. Ný og áhrifarík lyf eru hins vegar sífellt að finnast og það þýðir að þér kann að reiða miklu betur af nú með dreift krabbamein en einhverri annarri konu fyrir fáeinum árum.

Á þessu stigi brjóstakrabbameins er markmiðið að lengja líf þitt eins mikið og mögulegt er með sem allra mestum LÍFSGÆÐUM. Það felur í sér að draga sem mest úr einkennum eða framkalla sjúkdómshlé með sem minnstum aukaverkunum.  

Árangur þess að meðhöndla fjarmeinvörp brjóstakrabbameins er bestur þegar:

Krabbameinið hefur ekki sáð sér í líffæri eins og lifur eða heila. 

  • Estrógen og/eða prógesterón hormónaviðtakar  eru fyrir hendi á krabbameinsfrumunum.

  • Ekkert bendi til að meinið sé hætt að svara andhormónameðferð,  markmsækinni meðferð með trastuzumab (Herceptin®) eða meðferð með krabbameinslyfjum (að meinið sé lyfjaþolið).

  • Þú hefur ekki þegar fengið margs konar lyf eða farið í margar umferðir með krabbameinslyfjum (lyfjahringi).

Þótt þessi atriði séu ekki fyrir hendi hjá þér er engu að síður margt sem unnt er að gera. Margar konur lifa árum saman án þess að þessir þættir séu til staðar. 

ÞB