Að fá þann stuðning sem þú þarfnast

Þegar ljóst er orðið hversu útbreitt krabbameinið er þurfið þið, þú, fjölskylda þín og læknar, að setjast niður og tala saman um hvaða meðferð geti reynst þér best. Vertu viss um að lækningateymið þitt styðji þig í einu og öllu.

Líklegt er að þú gætir þegið aðstoð heima og í vinnunni meðan á meðferð stendur. Þú mátt búast við að meðferðin framkalli einhverja þreytu hjá þér sem gæti valdið því að þú treystir þér ekki til að gera sumt, fæst eða jafnvel ekki neitt af því sem þú ert vön að gera. Fólk er yfirleitt greiðvikið og margir tilbúnir að rétta fram hjálparhönd:

  • Unnt er að sækja um heimilishjálp á vegum borgar eða bæjar sem getur falist hvort heldur er í heimilisstörfum eða heimsendum mat o.fl.; sjálfboðaliðar á vegum hjálparstofnana eða safnaða geta hugsanlega veitt aðstoð við barnagæslu, máltíðir og aðrar daglegar þarfir.

  • Vinir og nágrannar geta hjálpað þér að fylla frystinn með tilbúnum mat sem þú getur gripið til þegar orkan er í lágmarki. Þeir geta líka létt undir með innkaupum, skutl eða barnagæslu. 

  • Samstarfsfólk er iðulega tilbúið að taka að sér meiri vinnu til þess að létta vinnuálagið á öðrum við þessar aðstæður. Athugaðu hvort þú getir ekki fækkað vinnustundum. Kynntu þér réttindi þín hjá stéttarfélagi þínu. Athugaðu líka hvort þú getur fengið að leysa einhver verkefni heima við ef þú treystir þér til. 

  • *Spjallrásin sem fyrirhugað er að opna á brjostakrabbamein.is er ekki tilbúin - því er nú verr og miður. Hafir þú hins vegar vald á ensku getur þú leitað stuðnings hjá þjáningarsystur eða -bróður á netinu - hjá einhverjum sem er í sömu sporum og þú - með því að fara inn á discussion boards og chat rooms á ameríska vefnum breastcancer.org sem er opinn allan sólarhringinn, alla daga vikunnar. Þú þarft bara að skrá þig inn.

  • Annar staður til að leita eftir stuðningi á (einnig á ensku) er www.bcmets.org, vefsíða ætluð konum með dreift brjóstakrabbamein. Þetta er lokuð spjallrás sem þarf að skrá sig inn á.

 ÞB