Hvað skiptir mestu máli fyrir þig?

Þú og krabbameinslæknirinn þinn þurfið að vera sammála um hvers konar meðferð þú ferð í. Það er afar mikilvægt. "Það er eins og sjúklingar séu með tvö skilti framan á sér," segir Dr. Larry Norton (á ensku), læknir við eitt fremsta krabbameinssjúkrahús Bandaríkjanna, Memorial Sloan-Kettering Cancer Center. "Á öðru skiltinu stendur 'læknaðu mig', á hinu stendur 'ekki meiða mig.' " Þið læknir þinn þurfið að fara yfir þessi mál í sameiningu. Segðu honum hve langt þú ert tilbúin að ganga í sambandi við meðferð. Segðu honum ef þú vilt gera sem minnst. Þótt afstaða þín sé önnur en hans, ber honum að virða óskir þínar.

Segjum til dæmis að læknir þinn mæli með ágengri meðferð, en þú viljir bara fá stuðningsmeðferð, hvað þá? Þá er mikilvægt að þið hlustið vel hvort á annað. Náið þið ekki að verða sammála, ætti læknir þinn að virða sjónarmið þitt og ákvörðun. Kjósir þú að fá óhefðbundna meðferð sem krabbameinslæknir þinn þekkir ekki og er ósáttur við, ætti hann að segja þér frá því. Þið getið hugsanlega fundið leið til að vinna saman engu að síður. Ef ekki, þarftu að fá annan lækni sem getur sætt sig við afstöðu þína.

Þú kannt að taka allt öðru vísi ákvörðun um meðferð á meðan þú ert frísk en eftir að þú ert komin með fjarmeinvörp brjóstakrabbameins. Rannsókn sem gerð var í Englandi sýndi að sjúklingar með virkt krabbamein sögðust vera tilbúnir að fara í meðferð með alvarlegum aukaverkunum þótt möguleikinn á lækningu væri aðeins 1%. Þeir sem tóku þátt í rannsókninni og voru sjúkdómsfríir sögðu hins vegar að 50% líkur þyrftu að vera á lækningu til að þeir þiggðu þannig meðferð.

Hvað ræður vali þínu getur einnig breyst í tímans rás og fer eftir því hvaða kosti þú átt um að velja, fjölskylduhögum og fleira. Konur með útbreidd meinvörp brjóstakrabbameins byrja sjaldnast á því að velja líknandi meðferð, viti þær að til eru lyf sem geta hugsanlega minnkað æxli, linað sjúkdómseinkenni og lengt líf þeirra. Það er alltaf eitthvað á næsta leiti sem þær langar til að halda upp á, taka þátt í — útskrift, brúðkaup, fæðing. Margar mæður lítilla barna kjósa að halda áfram ágengri meðferð eins lengi og mögulegt er í von um að fá svolítið lengri tíma með börnum sínum. Hver kona tekur þá ákvörðun sem hún telur rétta út frá eigin lífi og aðstæðum.

Ekki eru allar konur tilbúnar að ganga eins langt og ungar mæður. Sumar konur með sjúkdóminn á síðari stigum segja: "Ég vil reyna að lifa eins góðu lífi og ég get. Fyrst ég á ekki langt eftir vil ég verja þeim dögum sem mér gefast í annað en að þjást af aukverkunum krabbameinslyfja."

Hjá enn öðrum skiptir mestu að losna undan verkjum eftir því sem auðið er. Verkjastillandi lyf eru þar mikilvægur kostur. Stundum getur hins vegar meðferð með krabbameinslyfjum og geislameðferð — stundum jafnvel skurðaðgerð — verið besta leiðin til að lina verki  af völdum fjarmeinvarpa.

Segðu lækni þínum skýrt og skorinort hvað þú hefur í huga. Ræðið möguleikana sem eru fyrir hendi í sambandi við meðferð. Þá veit læknirinn nákvæmlega hvað skiptir þig mestu og þú skilur til fulls hvers vegna hann mælir með einu frekar en öðru.

Hvers þú óskar getur líka breyst eftir því sem fram líða stundir. Hugmyndir þínar um meðferð og þín eigin markmið munu einnig breytast með tímanum og fara eftir því hvernig þér líður og hvað fleira er um að vera í lífi þínu og annarra sem standa þér næst.

 

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB