Viðbrögð þín við meðferð

Þegar kemur að því að skipta um lyf eða íhuga nýja meðferð, kann læknir þinn að lýsa fyrir þér hvernig ákveðnir hópar kvenna hafa brugðist við því í ákveðinni rannsókn. Fullyrði læknirinn að ákveðið krabbameinslyf hafi gefið 30% svörun, á hann við að lyfið hafi virkað á 30% þeirra kvenna sem tóku þátt í rannsókninni. "Svörun" er skilgreind sem helmings (50%) minnkun æxlis eða meiri sem endist í þrjá mánuði eða lengur.

Læknar nota ýmis hugtök til að lýsa því hvernig sjúklingur bregst við meðferð:

  • Algjör svörun felur í sér að æxlið hverfur alveg (algjört sjúkdómshlé).

  • Ekki algjör svörun þýðir að æxli minnkar um 50% eða meira.

  • Lágmarkssvörun er minna en 50% minnkun æxlis.

  • Óbreytt ástand þýðir að krabbameinið er eins og áður.

  • Framrás þýðir að krabbameinið heldur áfram að stækka.

Sum lyf virka hraðar en önnur. Lyf sem þurfa lengri tíma til að virka eru ekki endilega áhrifaminni þegar fram í sækir. Það getur tekið lyf sem hafa áhrif á allan líkamann eins og andhormónalyf nokkra mánuði að fá fram fulla svörun. Yfirleitt eru að minnsta kosti tveir lyfjahringir krabbameinslyfja  gefnir áður en læknir lætur endurtaka prófanir til að athuga hvaða áhrif lyfin hafa haft á krabbameinið.  

Fylgjast þarf reglulega með því hvernig áhrif lyfin hafa á krabbameinið. Svörun þína við meðferðinni má að hluta dæma út frá því að það dregur úr einkennum - verkir minnka, daglegar athafnir aukast, andardráttur verður auðveldari. En viðbrögðin eru einnig mæld með blóðrannsókn og geislalæknisfræðilegum rannsóknum fyrir og eftir meðferð. Hvernig þú bregst við ákveðinni meðferð hjálpar lækni þínum og þér að meta gildi og gagnsemi meðferðarinnar fyrir þig.

Yfirleitt sést ekki fyrr en eftir nokkra mánuði hvernig þér farnast í nýrri meðferð.  

Ný rannsóknaraðferð, CellSearch, getur hraðað þessu ferli töluvert. Áður en meðferðin hefst er hún notuð til að telja hve margar krabbameinsfrumur finnast í blóði og síðan er talið aftur nokkrum vikum síðar. Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna samþykkti þessa rannsóknaraðferð í janúar 2004. Hún er hins vegar dýr og ekki víða sem hægt er að láta framkvæma hana. Spurðu lækni þinn ef þú hefur áhuga á að fá að vita meira. 

Haldi krabbameinið áfram að vaxa þrátt fyrir meðferð, hafa krabbameinsfrumurnar að öllum líkindum komið sér upp þoli gagnvart lyfinu sem þú tekur. Ólíklegt er að það gagnist þér að halda áfram að fá viðkomandi lyf. Oftast mun læknirinn vilja að þú skiptir yfir í annars konar lyf sem meiri líkur eru á að geti sigrast á krabbameininu. Hafi krabbamein til dæmis dreift sér á sama tíma og þú tókst inn móthormónalyfið tamoxifen,  gæti annars konar meðferð gagnast þér svo sem aromatase-hemlar  eða krabbameinslyf.

Áður en þú ferð í einhvers konar aðgerð eða byrjar að taka inn eitthvert lyf verður þú að fá að vita hvaða gagn þú getur hugsanlega haft af þeim og hvaða aukaverkunum þú getur búist við. *Í Bandaríkjunum* þurfa sjúklingar að gefa skriflegt samþykki sitt. Þú átt rétt á að hætta meðferð hvenær sem vera skal.

Haltu þig við meðferð sem virkar og hefur ekki meiri aukaverkanir en svo að þú getir sætt þig við þær. Hættu með það sem ekki virkar og reyndu eitthvað annað sem læknir þinn kann að telja að geti virkað. Hugsaðu þig samt vel um og taktu engar ákvarðanir í flýti. Þú verður að gefa hverri meðferð tækifæri til að virka áður en þú dæmir um það hvort hún hjálpar þér eða ekki.

ÞB